Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-69
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Líkamstjón
- Skaðabætur
- Upplýsingagjöf
- Viðmiðunartekjur
- Árslaun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 10. apríl 2025 leita VÍS tryggingar hf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 13. mars sama ár í máli nr. 46/2024: VÍS tryggingar hf. gegn A. Gagnaðili leggst gegn beiðninni
3. Málið varðar kröfu gagnaðila um greiðslu 5.253.974 króna ásamt vöxtum vegna umferðarslyss sem hún varð fyrir á árinu 2018. Leyfisbeiðandi byggir á því að gagnaðili hefði leynt félagið upplýsingum um umferðarslys sem hún varð fyrir árið 2013 þegar hún krafði félagið um bætur. Af þeirri ástæðu hefði hún glatað rétti til bóta úr hendi leyfisbeiðanda vegna seinna slyssins, sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga.
4. Héraðsdómur féllst á skyldu leyfisbeiðanda til greiðslu skaðabóta vegna slyssins. Í dómi Landsréttar var talið að gagnaðili gæti ekki borið hallann af mistökum lögmanns hennar við upplýsingagjöf í sameiginlegri matsbeiðni. Í fylgigögnum með beiðninni hefðu komið fram upplýsingar um fyrra slysið og umtalsverðar bætur sem leyfisbeiðandi hefði greitt henni á árinu 2016. Þá hafi gagnaðili ekki notið aðstoðar túlks á matsfundi, en móðurmál hennar væri pólska. Þótt gagnaðili hefði náð ágætis tökum á íslensku yrði því ekki vísað á bug að hún hefði við streitukenndar aðstæður á matsfundi misskilið spurningar matsmanna. Jafnframt hefði leyfisbeiðandi verið með matsgerð vegna fyrra slysins undir höndum. Mátti gagnaðili því gera ráð fyrir að leyfisbeiðandi byggi yfir öllum upplýsingum um fyrra slysið og þar með þeim upplýsingum og gögnum sem félagið þyrfti til að meta ábyrgð sína, sbr. 1. mgr. 120. gr. laga nr. 30/2004. Samkvæmt þessu var ekkert talið styðja að gagnaðili hefði vísvitandi veitt leyfisbeiðanda rangar upplýsingar í þeim tilgangi að fá greiddar hærri bætur en hún ætti rétt á, sbr. 2. mgr. 120. gr. laganna. Þá var fallist á með gagnaðila að aðstæður hennar hefðu verið óvenjulegar í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Var leyfisbeiðanda því gert að greiða gagnaðila 5.253.974 krónur auk vaxta í samræmi við aðalkröfu hennar.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Óumdeilt sé að lögmaður gagnaðila lýsti því yfir í matsbeiðni að hún hefði ekki áður orðið fyrir slysi eða líkamstjón hennar metið til örorku. Þá komi fram í matsgerð og framburði matsmanna að gagnaðili hafi tjáð þeim að hún hefði ekki áður verið metin til örorku. Jafnframt komi fram í framburði hennar fyrir héraðsdómi að hún hafi fengið matsgerðina, kynnt sér hana og rætt efni hennar við lögmann sinn. Þá liggi fyrir kröfubréf frá lögmanni gagnaðila þar sem krafist sé fullra bóta samkvæmt matsgerðinni. Leyfisbeiðandi telur að hefði starfsmaður hans ekki uppgötvað greiðslur á skattframtölum gagnaðila hefði hún fengið ofgreiddar bætur sem nemi 10.765.038 króna. Með þessu hafi gagnaðili fyrirgert rétti sínum til bóta úr hendi leyfisbeiðanda, sbr. 120. gr. laga nr. 30/2004. Leyfisbeiðandi telur skilyrði 1. og 2. mgr. 120. gr. laganna uppfyllt og að rökstuðningur Landsréttar um þessi atriði sé í grundvallaratriðum rangur. Þá liggi fyrir umboð gagnaðila til lögmanns hennar þar sem tekið sé fram að allt sem gert sé samkvæmt því sé jafngilt því að hún sjálf hefði gert það. Að lokum byggir leyfisbeiðandi á því að niðurstaða Landsréttar um árslaunaviðmið við útreikning bóta fyrir varanlega örorku sé efnislega röng.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki talið að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.