Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-129
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Vörumerki
- Óréttmætir viðskiptahættir
- Lögbann
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 10. júlí 2025 leitar Papco hf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 12. júní sama ár í máli nr. 458/2024: Samhentir Kassagerð hf. gegn Papco hf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að notkun leyfisbeiðanda á auðkenninu „STERKIR“ en gagnaðili krafðist þess að lögbann sýslumanns við notkuninni yrði staðfest.
4. Héraðsdómur sýknaði leyfisbeiðanda af kröfu gagnaðila en með dómi Landsréttar var lögbannið staðfest og viðurkennt að leyfisbeiðanda væri óheimilt að framleiða, flytja inn, dreifa, selja eða ráðstafa með öðrum hætti nánar tilgreindum plastpokum sem auðkenndir væru með heitinu „STERKIR“. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að heildarmynd merkja gagnaðila, sem samanstóðu af orðinu „STERKUR“ með ákveðinni stílfærslu og firmaheiti hans „SAMHENTIR“, fælu í sér nægjanlegt sérkenni til að teljast skráningarhæf í skilningi 1. mgr. 13. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki og að stofnast hefði vörumerkjaréttur hans á grundvelli notkunar, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 3. gr. laganna. Gagnaðili var þó ekki talinn hafa sýnt fram á að hætt væri við ruglingi í skilningi 2. töluliðar 4. gr. sömu laga. Landsréttur komst aftur á móti að þeirri niðurstöðu að notkun auðkennisins „STERKIR“ væri til þess fallin að valda ruglingi við vöru gagnaðila í skilningi síðari málsliðar 15. gr. a laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, jafnvel þótt bæði fyrirtækin hefðu merkt plastpoka sína með firmaheitum. Taldi Landsréttur því að leyfisbeiðandi hefði brotið gegn gagnaðila með ólögmætum hætti samkvæmt þeirri grein og því uppfyllt skilyrði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. fyrir lögbanni.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi verulegt almennt gildi á sviði vörumerkja- og viðskiptaréttar. Byggir hann einkum á því að niðurstaða Landsréttar feli í sér nýmæli hvað varði einkarétt aðila til að nota lýsandi og almennt vöru- eða verslunarmerki á borð við lýsingarorðið „sterkur“ og meina samkeppnisaðilum á markaði að sérgreina vöru sína með sama hugtaki. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að niðurstaða Landsréttar sé bersýnilega röng, einkum um beitingu réttarins á 15. gr. a laga nr. 57/2005. Þá sé niðurstaða réttarins röng um samspil laga um vörumerki og laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.
6. Að virtum gögnum málsins verður litið svo á að úrslit þess geti haft fordæmisgildi á sviði vörumerkjaréttar og óréttmætra viðskiptahátta. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.