Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-139

Aðalsteinn Kjartansson (Gunnar Ingi Jóhannsson lögmaður)
gegn
Páli Vilhjálmssyni (Sigurður G. Guðjónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Ærumeiðingar
  • Ómerking ummæla
  • Tjáningarfrelsi
  • Friðhelgi einkalífs
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Björg Thorarensen og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 23. júlí 2025 leitar Aðalsteinn Kjartansson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 26. júní sama ár í máli nr. 377/2024: Páll Vilhjálmsson gegn Aðalsteini Kjartanssyni. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um ómerkingu nánar tilgreindra ummæla gagnaðila sem hann viðhafði á vefsvæði sínu á tímabilinu 2. apríl 2022 til 14. apríl 2023. Ummælin áttu það öll sammerkt að lúta með einum eða öðrum hætti að því að leyfisbeiðandi og aðrir blaðamenn hefðu átt aðild að byrlun tiltekins einstaklings og þjófnaði á síma hans í því skyni að skrifa fréttir sem tengdust tilteknu fyrirtæki.

4. Með héraðsdómi voru ummæli gagnaðila ómerkt og honum gert að greiða leyfisbeiðanda 450.000 krónur í miskabætur. Með dómi Landsréttar var gagnaðili sýknaður af kröfum leyfisbeiðanda. Í dóminum kom fram að þótt ummæli gagnaðila hefðu vissulega verið beinskeytt og óvægin yrði að líta til þess að leyfisbeiðandi hefði haft stöðu sakbornings og sætt rannsókn lögreglu þegar ummælin féllu. Þá hefði gagnaðili verið þátttakandi í almennri umræðu um mikilvæg samfélagsleg málefni sem erindi ættu við almenning og hefði af þeim sökum notið rúms tjáningarfrelsis. Jafnframt mætti leyfisbeiðandi sem blaðamaður og opinber persóna gera ráð fyrir að þurfa að þola hvassa og óvægna gagnrýni í kjölfar eigin skrifa. Að því virtu var lagt til grundvallar að gagnaðili hefði mátt vera í góðri trú um að nægjanlegt tilefni hefði verið til ummælanna. Þau hefðu, þegar litið væri til hinnar hvössu umræðu sem málið hefði vakið, hvorki gengið svo langt að nauðsyn bæri til þess í lýðræðislegu samfélagi að ómerkja þau né hefðu þau skaðað mannorð leyfisbeiðanda að því marki að greiða bæri miskabætur. Var sú tjáning gagnaðila sem um var deilt talin rúmast innan tjáningarfrelsis hans samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða Landsréttar um frávísunarkröfu hans frá sé röng og málsmeðferð fyrir réttinum hafi verið ábótavant. Vísar hann einkum til þess að nauðsynlegt sé að fá niðurstöðu Hæstaréttar um hvort málsmeðferðin að því er varðar skort á áfrýjunarleyfi fyrir Landsrétti hafi verið í samræmi við lög. Jafnframt er á því byggt að niðurstaða í málinu geti haft fordæmisgildi um mörk tjáningarfrelsis og friðhelgi einkalífs en dómur Landsréttar feli í sér stefnubreytingu á því sviði. Loks er á því byggt að dómurinn sé bersýnilega rangur að efni til.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.