Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-271
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Börn
- Forsjársvipting
- Meðdómsmaður
- Lögskýring
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson.
Með beiðni 3. október 2019 leitar A eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 27. september sama ár í málinu nr. 564/2019: A gegn barnaverndarnefnd B, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Barnaverndarnefnd B leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um að leyfisbeiðandi verði sviptur forsjá tveggja barna sinna á grundvelli 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Héraðsdómur [...] féllst á að skilyrðum greinarinnar væri fullnægt og tók til greina kröfu gagnaðila um að svipta leyfisbeiðanda forsjá barnanna. Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu.
Leyfisbeiðandi rökstyður beiðni sína einkum með vísan til þess að meðferð málsins í Landsrétti hafi verið ábótavant og beri því að ómerkja dóm Landsréttar og vísa málinu að nýju til réttarins til löglegrar meðferðar. Byggir leyfisbeiðandi á því að skipan dómsins hafi ekki verið í samræmi við kröfu 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga, sbr. 2. gr. a. laga nr. 91/1991, þar sem sérfróður meðdómsmaður hafi ekki verið kvaddur til setu í dóminum heldur hafi þrír embættisdómarar dæmt í málinu. Telur leyfisbeiðandi að þrátt fyrir að 1. mgr. 2. gr. a. laga nr. 91/1991 eftirláti forseta Landsréttar almennt séð nokkurt svigrúm við mat á því hvort kveðja skuli sérfróðan meðdómsmann til setu í dómi þá hafi hann ekki slíkt mat í málum sem þessum enda sé skýrt af orðalagi 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga að ávallt skuli skipa sérfróðan meðdómsmann í forsjársviptingarmálum. Þá telur leyfisbeiðandi að skilyrðum 29. gr. sömu laga til að svipta hann forsjá barna sinna hafi ekki verið fullnægt, meðalhófsreglu barnaverndarlaga hafi ekki verið fylgt og ákvörðun um að höfða forsjársviptingarmál hafi verið ólögmæt. Telur leyfisbeiðandi með vísan til framangreinds að úrslit málsins hafi bæði verulegt almennt gildi og varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína.
Fallist er á að úrlausn þess hvort réttilega hafi verið staðið að skipan dóms í málinu með tilliti til 1. mgr. 54. gr. laga nr. 80/2002 og 2. gr. a. laga nr. 91/1991 myndi hafa fordæmisgildi. Er því fallist á beiðni leyfisbeiðanda um að málið verði flutt um formhlið þess fyrir Hæstarétti með tilliti til þessa og er beiðnin því tekin til greina að þessu leyti.