Hæstiréttur íslands

Nr. 2020-24

Vörður tryggingar hf. (Eva B. Helgadóttir lögmaður)
gegn
A (Jónas Þór Jónasson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Líkamstjón
  • Varanleg örorka
  • Skaðabætur
  • Lífeyrisréttur
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Með beiðni 14. janúar 2020 leitar Vörður tryggingar hf. eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 20. desember 2019 í málinu nr. 255/2019: Vörður tryggingar hf. gegn A, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. A leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að uppgjöri á skaðabótum vegna slyss sem gagnaðili varð fyrir 17. mars 2014 um borð í fiskiskipinu [...]. Deila aðilar um hvort draga hafi átt frá bótum til gagnaðila eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris úr lífeyrissjóði sem hann hafði notið við batahvörf samkvæmt 4. málslið 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Gagnaðili naut tímabundins örorkulífeyris frá Lífeyrissjóði [...] eftir umrætt slys fram í mars 2017 miðað við 100% örorku til fyrri sjómannsstarfa samkvæmt örorkumati trúnaðarlæknis sjóðsins. Samkvæmt samþykktum sjóðsins var fyrrgreindum örorkulífeyri frá upphafi ætlað að vera tímabundinn til þriggja ára og hafði miðast eingöngu við vanhæfni gagnaðila til að gegna fyrra starfi. Eftir það tímamark átti örorkulífeyrinn samkvæmt fyrrgreindri grein í samþykktum lífeyrissjóðsins að sæta endurskoðun á grundvelli nýs mats trúnaðarlæknis sjóðsins á orkutapi og miðast við hæfni gagnaðila til að gegna almennum störfum. Var það mat gert 23. mars 2017 og örorka gagnaðila metin 40% til almennra starfa sem leiddi til þess að hann naut ekki lengur réttar til örorkulífeyris hjá lífeyrissjóðnum. Leyfisbeiðandi dró 2.921.345 krónur frá bótum gagnaðila vegna örorkulífeyrisgreiðslna sem gagnaðili hafði fengið frá stöðugleikapunkti til og með mars 2017, en ekki var ágreiningur um að leyfisbeiðanda hafi verið það heimilt. Deilt er um hvort leyfisbeiðanda hafi einnig verið heimilt að draga frá bótum væntar örorkulífeyrisgreiðslur gagnaðila að fjárhæð 17.180.256 krónur vegna tímabilsins frá apríl 2017 til 67 ára aldurs gagnaðila.

Með fyrrnefndum dómi staðfesti Landsréttur niðurstöðu héraðsdóms þar sem leyfisbeiðanda var gert að greiða gagnaðila umrædda fjárhæð. Vísaði rétturinn til þess að leyfisbeiðandi bæri sönnunarbyrði fyrir réttmæti þess frádráttar sem hann gerði við bótauppgjörið. Var talið að leyfisbeiðandi hefði ekki fært fram gögn eða rök fyrir því að örorkumat gagnaðila hjá lífeyrissjóðnum væri líklegt til að breytast þannig að gagnaðili myndi á ný njóta réttar til örorkulífeyris hjá sjóðnum. Þá var vísað til þess að ef fallist hefði verið á kröfur leyfisbeiðanda hefði það við þessar aðstæður leitt til þess að gagnaðili hefði ekki fengið tjón sitt bætt að fullu í samræmi við þau grundvallarsjónarmið sem lægju að baki reglum skaðabótalaga.

Leyfisbeiðandi byggir aðallega á því að óvissa sé um túlkun og beitingu 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga og fordæmisgildi dóma Hæstaréttar, þar sem ítrekað hafi verið kveðið á um að leggja beri til grundvallar að reikna skuli aðrar greiðslur samkvæmt fyrrnefndu ákvæði til eingreiðsluverðmætis miðað við stöðu tjónþola við batahvörf og draga þá fjárhæð frá bótum. Telur leyfisbeiðandi að um sé að ræða grundvallartúlkun á fyrrnefndu ákvæði og að málið hafi því verulegt almennt gildi en telja megi að öll tryggingafélög landsins telji dóm Landsréttar á skjön við fyrri fordæmi og með dóminum hafi rétturinn gerbreytt bótauppgjörum. Þá vísar leyfisbeiðandi til þess að málið varði mikilvæga hagsmuni sína en krafan nemi tæpum þrjátíu milljónum króna.

Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í málinu geti haft fordæmisgildi um túlkun og beitingu 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Er umsókn leyfisbeiðanda því samþykkt.