Hæstiréttur íslands

Nr. 2020-71

Karl Eiríksson (Karl Ó. Karlsson lögmaður)
gegn
Flugfélagi Íslands ehf. (Jón R. Pálsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Kjarasamningur
  • Veikindalaun
  • Viðurkenningarkrafa
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Með beiðni 26. febrúar 2020 leitar Karl Eiríksson eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 31. janúar sama ár í máli nr. 923/2018: Karl Eiríksson gegn Flugfélagi Íslands ehf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Flugfélag Íslands ehf. leggst gegn beiðninni.

Leyfisbeiðandi höfðaði mál þetta og krafðist greiðslu veikindalauna í 13 mánuði úr hendi gagnaðila og viðurkenningar á því að hann skyldi njóta almennra frímiðaréttinda hjá honum í tíu ár. Leyfisbeiðandi var í tímabundnu launalausu leyfi frá störfum hjá gagnaðila og starfaði sem flugstjóri hjá flugfélaginu Norlandair þegar hann veiktist alvarlega 18. september 2012 svo að leiddi til missis starfsréttinda hans sem atvinnuflugmanns. Leyfisbeiðandi fékk greidd veikindalaun frá síðastnefndu flugfélagi í 13 mánuði og bætur frá tryggingafélagi á grundvelli kjarasamningsbundinnar skírteinistryggingar vegna missis atvinnuflugmannsskírteinis. Krafa leyfisbeiðanda byggir á því að gagnaðila hafi til viðbótar borið að greiða honum veikindalaun í 13 mánuði frá þeim degi sem ráðgert var að hann sneri til starfa aftur að loknu umræddu leyfi. Reisir hann kröfuna á ákvæðum kjarasamnings Félags íslenskra atvinnuflugmanna við Samtök atvinnulífsins vegna gagnaðila frá 1. apríl 2015.

Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu. Vísað var til þess að í launalausu leyfi yrði ráðningarsamband starfsmanns og vinnuveitanda tímabundið óvirkt og gagnkvæmar skyldur aðila féllu niður meðan á því stendur. Um rétt leyfisbeiðanda í veikindaleyfi hafi því farið eftir kjarasamningi Félags íslenskra atvinnuflugmanna við flugfélagið Norlandair sem hefði þegar efnt skyldur sínar í þeim efnum. Við þessar aðstæður gætu veikindaréttindi leyfisbeiðanda á hendur gagnaðila ekki orðið virk á ný enda þá legið fyrir að hann myndi ekki geta komið aftur til starfa þar sem hann hefði misst starfsréttindi sín sem atvinnuflugmaður. Hið sama ætti við um starfskjör hans að öðru leyti, svo sem frímiðaréttindi. Einn dómari Landsréttar skilaði sératkvæði þar sem hún lýsti sig sammála niðurstöðu meirihlutans um kröfu leyfisbeiðanda til launa í veikindaforföllum en á öðrum forsendum, auk þess sem hún taldi að fallast bæri á viðurkenningarkröfu leyfisbeiðanda.

Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi, auk þess sem það varði sérstaklega mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sína. Telur leyfisbeiðandi að málið hafi fordæmisgildi um túlkun á ákvæðum fjölda kjarasamninga Félags íslenskra atvinnuflugmanna við flugrekendur á Íslandi sem allir hafi sambærileg ákvæði um veikindarétt atvinnuflugmanna. Leyfisbeiðandi bendir jafnframt á að launalaus leyfi séu algeng í starfstéttinni og að ekki hafi áður reynt á ágreiningsefni málsins fyrir dómi. Loks sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur að efni til meðal annars sökum þess að rétturinn hafi ranglega talið að starfsamband hans við annan flugrekanda og starfsréttindamissir hans hefðu áhrif á kjarasamningsbundinn veikindarétt hans hjá gagnaðila.

Að virtum gögnum málsins verður hvorki talið  að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Er beiðninni því hafnað.