Hæstiréttur íslands
Nr. 2020-94
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Ómerking héraðsdóms
- Kæruheimild
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Með beiðni 25. mars 2020 leitar Héðinsreitur ehf. eftir leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 11. mars 2020 í málinu nr. 37/2020: Gamli Byr ses. gegn Héðinsreit ehf. á grundvelli 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gamli Byr ses. leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur aðallega að kröfu leyfisbeiðanda um að viðurkennt verði að skaðabótakrafa hans að fjárhæð 3.000.000.000 króna njóti stöðu í réttindaröð við slit gagnaðila samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Krafa leyfisbeiðanda er byggð á því að gagnaðili hafi með ólögmætum hætti vanefnt fjármögnunarsamning sem aðilar gerðu með sér 9. október 2007 með því að lýsa yfir riftun 12. júní 2008. Með dómi Hæstaréttar 17. nóvember 2011 í máli nr. 87/2011 var skaðabótaskylda gagnaðila viðurkennd en aðila greinir nú á um það hvort og þá hve miklu tjóni leyfisbeiðandi hafi orðið fyrir vegna hinnar ólögmætu riftunar. Héraðsdómur tók kröfu leyfisbeiðanda til greina og var hún samþykkt sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slit gagnaðila. Landsréttur ómerkti dóm héraðsdóms og vísaði málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar að nýju þar sem kvaðning tveggja sérfróðra meðdómsmanna hefði ekki samrýmst 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 eins og þeim hafði verið breytt með lögum nr. 49/2016. Leyfisbeiðandi leitar leyfis til að fá ómerktan hinn kærða úrskurð og að lagt verði fyrir Landsrétt að taka málið til nýrrar efnismeðferðar og dómsuppsögu.
Samkvæmt 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 er unnt að leita leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurði Landsréttar þegar svo er fyrir mælt í öðrum lögum. Samkvæmt 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 er heimilt að óska eftir leyfi Hæstaréttar til að kæra til réttarins úrskurði Landsréttar sem fela í sér lokaákvörðun um ágreiningsefnið. Landsréttur ómerkti dóm héraðsdóms og vísaði málinu aftur heim í hérað til löglegrar meðferðar og fól úrskurðurinn því ekki í sér lokaákvörðun um ágreiningsefnið. Hvorki er í lögum nr. 21/1991 né í lögum nr. 91/1991 kveðið á um heimild til að sækja um leyfi Hæstaréttar til að kæra slíka úrskurði Landsréttar. Þegar af þessari ástæðu er beiðni um kæruleyfi hafnað.