Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-128
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Fasteign
- Kaupsamningur
- Galli
- Matsgerð
- Skaðabætur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Karl Axelsson, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 24. nóvember 2023 leitar Snorri ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til að áfrýja dómi Landsréttar 27. október sama ár í máli nr. 339/2022: Snorri ehf. gegn Halldóri E. Guðbjartssyni. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Ágreiningur í máli þessu lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um greiðslu eftirstöðva kaupverðs fasteignar ásamt nánar tilgreindum vöxtum. Gagnaðili byggir á því að hann eigi gagnkröfu á hendur leyfisbeiðanda vegna afhendingardráttar og galla á fasteigninni. Gagnaðili aflaði matsgerðar undir rekstri málsins.
4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Í dóminum var rakið að samkvæmt matsgerð sem lá fyrir í málinu hafi frágangur og gæði þriggja verkþátta ekki verið í samræmi við teikningar sem voru aðgengilegar gagnaðila við gerð kaupsamnings og því hafnað kröfu leyfisbeiðanda að þessir verkþættir teldust ekki gallaðir. Þá lá fyrir að gagnaðili ætti kröfur um bætur á grundvelli samkomulags um tafabætur. Gagnkröfur gagnaðila voru taldar hærri en krafa leyfisbeiðanda og var gagnaðili sýknaður af kröfum leyfisbeiðanda.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar hafi fordæmisgildi um sönnunargildi matsgerða í dómsmálum um fasteignakaup. Sú matsgerð sem liggi fyrir í málinu sanni hvorki að eignin sé gölluð né tjón gagnaðila. Þá telur leyfisbeiðandi að dómurinn sé bersýnilega rangur um hvaða eignarhlutar fasteignarinnar teljist séreign og að tjón gagnaðila sé metið langt umfram raunkostnað hans af viðgerðum.
6. Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómurinn sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.