Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-171

Þrotabú Karls Emils Wernerssonar (Árni Ármann Árnason lögmaður)
gegn
Jóni Hilmari Karlssyni (Ólafur Eiríksson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Kæruheimild
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Ingveldur Einarsdóttir.

2. Með beiðni 27. desember 2022 leitar þrotabú Karls Emils Wernerssonar leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 14. sama mánaðar í máli nr. 691/2022: Þrotabú Karls Emils Wernerssonar gegn Jóni Hilmari Karlssyni. Um kæruheimild er vísað til 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um riftun á ráðstöfun þrotamanns sem fólst í því að hann afsalaði með kaupsamningi til gagnaðila öllum hlutum í félaginu Toska ehf. Jafnframt gerði leyfisbeiðandi meðal annars þá kröfu að gagnaðili yrði dæmdur til að afsala aftur til sín öllum hlutum í félaginu gegn greiðslu frá leyfisbeiðanda á söluverði hlutanna að fjárhæð 1.133.000 krónur að viðlögðum tilgreindum dagsektum. Héraðsdómur féllst á riftun þeirrar ráðstöfunar þrotamanns sem fólst í sölu allra hluta í Toska ehf. til gagnaðila en vísaði frá dómi kröfu leyfisbeiðanda um að gagnaðili yrði dæmdur til að viðlögðum dagsektum til að afsala aftur til leyfisbeiðanda öllum hlutum í félaginu gegn greiðslu á söluverði þeirra.

4. Með úrskurði Landsréttar var niðurstaða héraðsdóms um frávísun síðastgreindrar kröfu staðfest. Landsréttur vísaði til þess að meginreglan við riftun væri að aðilar skyldu verða eins settir fjárhagslega og ef hin riftanlega ráðstöfun hefði ekki verið gerð. Með vísan til verðmætaaukningar hluta í félaginu var leyfisbeiðandi ekki talinn hafa rökstutt með hvaða hætti krafan, um að gagnaðili yrði dæmdur til að afsala hlutunum aftur til sín gegn greiðslu er næmi söluandvirði hlutanna, færi saman við framangreinda meginreglu og hvort og þá með hvaða hætti hann myndi jafna greiðslur aðila. Taldi Landsréttur málatilbúnað hans að þessu leyti svo óljósan og vanreifaðan að óhjákvæmilegt væri að vísa þessari kröfu hans sjálfkrafa frá héraðsdómi.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að kæruefnið hafi fordæmisgildi og varði mikilsverða almannahagsmuni. Í því sambandi bendir hann á að ágreiningur málsins varði mikilvæg álitaefni á sviði gjaldþrotaskiptaréttar og hafi mikla þýðingu fyrir kröfugerðir skiptastjóra á grundvelli XX. kafla laga nr. 21/1991 og túlkun 144. gr. laganna. Þá byggir hann á því að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni til. Krafan hefði átt að koma til efnislegrar úrlausnar þar sem hún uppfylli réttarfarskröfur um skýra framsetningu og sé ekki vanreifuð. Þá hafi Landsréttur misskilið ákvæði 144. gr. laga nr. 21/1991 og túlkað það með röngum hætti auk þess sem rétturinn hafi beitt sönnunarreglum á rangan hátt. Loks byggir hann á því að niðurstaða Landsréttar hafi að hluta til byggst á röngum forsendum.

6. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt án leyfis að kæra til Hæstaréttar úrskurð Landsréttar ef þar hefur verið mælt fyrir um frávísun máls frá héraðsdómi eða Landsrétti ef ekki er um að ræða staðfestingu á slíkri dómsathöfn héraðsdóms. Getur úrskurður Landsréttar samkvæmt því sætt kæru til Hæstaréttar ef þar hefur verið tekin ákvörðun um að vísa máli frá héraðsdómi sem ekki hefur fyrr verið gert. Á hinn bóginn sætir úrskurður Landsréttar ekki kæru til Hæstaréttar eftir framangreindri heimild ef þar hefur verið staðfestur úrskurður héraðsdóms um frávísun svo sem hér á við.

7. Samkvæmt 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 sem leyfisbeiðandi vísar til í umsókn sinni er unnt að sækja um leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurði Landsréttar þegar svo er fyrir mælt í öðrum lögum. Þegar hinn kærði úrskurður var kveðinn upp var hvorki í lögum nr. 21/1991 né öðrum lögum kveðið á um heimild til að sækja um leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar þar sem staðfest er niðurstaða héraðsdóms um að vísa máli að hluta eða öllu leyti frá dómi, sbr. meðal annars ákvörðun Hæstaréttar 29. júní 2022 í máli nr. 2022-75. Er þess þá að gæta að lög nr. 134/2022 tóku ekki gildi fyrr en eftir að hinn kærði úrskurður var kveðinn upp. Þegar af þessari ástæðu er beiðni um kæruleyfi hafnað.