Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-364
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skaðabætur
- Fasteignasali
- Starfsábyrgðartrygging
- Leigusamningur
- Víxill
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Með beiðni 17. desember 2019 leita Björgvin Björgvinsson og Vátryggingafélag Íslands hf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 29. nóvember sama ár í máli nr. 211/2019: Vellir ehf. gegn Björgvini Björgvinssyni og Vátryggingafélagi Íslands hf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vellir ehf. leggjast gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um greiðslu skaðabóta úr hendi leyfisbeiðenda vegna tjóns sem leyfisbeiðandinn Björgvin hafi valdið honum með því að gæta ekki að því að tryggingarvíxill, sem leyfisbeiðandinn hafði sem fasteignasali tekið að sér að útbúa til tryggingar greiðslum samkvæmt leigusamningi, væri rétt útfylltur en undirskrift útgefanda vantaði á hann, sbr. 8. tölulið 1. mgr. 1. gr. víxillaga nr. 93/1933. Heldur gagnaðili því fram að af þessum sökum hafi skjalið ekki haft víxilgildi og því hafi ekki verið hægt að innheimta kröfuna sem víxilkröfu, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Héraðsdómur sýknaði leyfisbeiðendur af kröfu gagnaðila en Landsréttur tók hana á hinn bóginn til greina með fyrrnefndum dómi.
Leyfisbeiðendur byggja á því að úrlausn málsins hafi verulegt almennt gildi og varði mikilvæga hagsmuni þeirra auk þess sem dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni til. Vísa þeir til þess að héraðsdómur hafi ekki tekið afstöðu til þess hvort umrætt skjal hafi víxilgildi en Landsréttur hafi þrátt fyrir það leyst úr málinu á grundvelli þeirrar málsástæðu. Telja leyfisbeiðendur að málið hafi fordæmisgildi um það hvort nauðsynlegt sé að leysa úr málsástæðu í undirrétti til þess að áfrýjunardómstóll geti tekið efnislega afstöðu til hennar. Þá hafi málið verulegt almennt gildi um þýðingu þess að undirritun útgefanda sé á víxli eins og áskilið sé í 8. tölulið 1. mgr. 1. gr. víxillaga en ekki á þeim stað sem venjubundið er. Loks byggja leyfisbeiðendur á því að sú staðreynd að gagnaðili hafi áður reynt að innheimta kröfuna samkvæmt umræddu skjali sem víxilskuld og stefnt þeim sem rituðu nöfn sín á það en síðar fellt málið einhliða niður geti ekki talist fela í sér árangurslausa innheimtu eins og Landsréttur hafi lagt til grundvallar. Þar sem efnisdómur hafi ekki fengist í því máli sé tjón gagnaðila ekki sannað.
Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur hvorki að formi til né efni. Er beiðninni því hafnað.