Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-35
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Fjárnám
- Skattur
- Aðför
- Erlend réttarregla
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
2. Með beiðni 10. mars 2024 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 4. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, til að kæra úrskurð Landsréttar 1. sama mánaðar í máli nr. 83/2024: A gegn Skattinum. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að því hvort að fella beri úr gildi fjárnám sem fram fór hjá leyfisbeiðanda að kröfu gagnaðila til tryggingar á vangoldinni skattkröfu norskra yfirvalda á hendur dánarbúi föður leyfisbeiðanda. Leyfisbeiðandi byggði á því á að krafan væri fallin niður fyrir tómlæti eða fyrningu.
4. Með úrskurði Landsréttar var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu leyfisbeiðanda um ógildingu aðfarargerðarinnar staðfestur með vísan til forsendna. Norsk skattyfirvöld höfðu óskað eftir því að sýslumaður veitti aðstoð sína við innheimtu á skattkröfunni í samræmi við samning Norðurlandanna um aðstoð í skattamálum frá 7. desember 1989, sbr. lög nr. 46/1990. Héraðsdómur vísaði til þess að í 2. mgr. 14. gr. auglýsingar Norðurlandasamnings um aðstoð í skattamálum segði að úr álitaefnum er varði tímamörk krafna skuli leyst samkvæmt löggjöf þess aðildarríkis sem beiðni bar fram. Í héraðsdómi kom fram að í beiðni norskra skattyfirvalda til gagnaðila um innheimtu skattkrafa hjá föður leyfisbeiðanda hafi komið fram staðfesting þess efnis að krafan fyrndist ekki fyrr en 15. mars 2025 eða 10 árum eftir að beiðnin var send. Vísað var til þess að í norskum fyrningarlögum væri sérákvæði um fyrningu skattkrafna sem væru til innheimtu í öðru ríki þar sem fram kæmi að fyrning væri rofin með því að setja fram kröfu og reiknist þá nýr fyrningarfrestur sem gildi í 10 ár. Héraðsdómur staðfesti fjárnámsgerðina með vísan til þess að um fyrningu norskra skattkrafna sem væru til innheimtu hér á landi færi eftir norskum fyrningarlögum og að samkvæmt þeim lögum væri krafan ófyrnd. Þá var ekki fallist á að gagnaðili hefði sýnt af sér tómlæti við innheimtu kröfunnar.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að kæruefnið hafi fordæmisgildi varðandi fyrningu kröfuréttinda enda hafi Hæstiréttur ekki áður fjallað um hvort heimilt sé að víkja frá ákvæðum íslenskra fyrningarlaga þegar erlend krafa er gerð í dánarbú hér á landi. Þá sé niðurstaðan jafnframt fordæmisgefandi um tómlætisreglur. Leyfisbeiðandi byggir einnig á því að niðurstaða málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Að auki er á því byggt að hin kærða dómsathöfn sé bersýnilega röng að efni. Annars vegar þar sem röng lagaákvæði hafi verið lögð til grundvallar niðurstöðu málsins með því að beita norskum fyrningarlögum og hins vegar þar sem krafan sé fyrnd hvort sem farið sé að íslenskum eða norskum fyrningarlögum.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrlausn um kæruefnið geti haft fordæmisgildi þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá er ekki ástæða til að ætla að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni, sbr. 3. málslið 2. mgr. 167. gr. laganna. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.