Hæstiréttur íslands

Nr. 2020-5

Váttur ehf. (Halldór Brynjar Halldórsson lögmaður)
gegn
þrotabúi Steingríms Wernerssonar (Helgi Birgisson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Fjárnám
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.

Með beiðni 2. janúar 2020 leitar Váttur ehf. leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 19. desember 2019 í málinu nr. 667/2019: Váttur ehf. gegn þrotabúi Steingríms Wernerssonar, á grundvelli 4. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þrotabú Steingríms Wernerssonar leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um ógildingu fjárnáms sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu gerði í fasteign hans 6. febrúar 2019 til fullnustu kröfu samkvæmt veðskuldabréfi 26. maí 2011 að nafnvirði 120.000.000 króna. Veðskuldabréfið var gefið út af Karli Emil Wernerssyni til Steingríms Wernerssonar, meðal annars vegna kaupa þess fyrrnefnda á eignarhlutum í leyfisbeiðanda, og skyldi bréfið vera í vörslu lögmanns hans. Leyfisbeiðandi reisti kröfu sína einkum á því að veðréttur sá sem lá til grundvallar umræddri aðfarargerð væri úr gildi fallinn þar sem skuldin sem veðið átti að tryggja hefði fallið niður við samruna á réttindum og skyldum. Hafi það gerst með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2017 þar sem fallist var á kröfu skuldara um að umrætt veðskuldabréf yrði með beinni aðfarargerð tekið úr umráðum lögmannsins og afhent skuldara. Leyfisbeiðandi byggði á því að úrskurðurinn staðfesti að umrædd sala á eignarhlutunum í leyfisbeiðanda hefði gengið til baka. Í öllu falli væri vafi um hvort gagnaðili ætti þann rétt sem veðskuldabréfinu var ætlað að tryggja í skilningi 2. mgr. 27. gr. laga nr. 90/1989.

Með úrskurði Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að hafna kröfu leyfisbeiðanda. Var meðal annars vísað til þess að úrskurðurinn sem leyfisbeiðandi byggði kröfu sína á væri kveðinn upp á grundvelli 13. kafla laga nr. 90/1989 og yrði ekki jafnað til dóms í einkamáli sem ætlað væri að vera endanleg niðurstaða í deilu aðila um viðkomandi sakarefni. Ákvæði 116. gr. laga nr. 91/1991 um réttaráhrif dóms ættu því ekki við um úrskurð samkvæmt 13. kafla laga nr. 90/1989, sbr. einnig dóm Hæstaréttar 7. febrúar 2007 í máli nr. 53/2007. Fyrrnefnd úrlausn héraðsdóms gæti því ekki verið bindandi á þann veg að með henni hefði því verið slegið föstu að skuldari veðskuldabréfsins eða þrotabú skuldara væri réttmætur eigandi þess.

Leyfisbeiðandi byggir á því að hinn kærði úrskurður sé bersýnilega rangur að efni til. Vísar hann til þess að gagnaðili hafi unnið rétt með því að hafa að engu endanlegan úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2017. Umrædd aðfarargerð hafi þannig farið fram á grundvelli veðskuldabréfs þrátt fyrir að veðrétturinn sem bréfinu var ætlað að tryggja væri niður fallinn. Kæruefnið hafi því jafnframt fordæmisgildi um það hvort unnt sé að vinna rétt með órétti.

Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrlausn um kæruefnið hafi fordæmisgildi, þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Er beiðninni því hafnað.