Hæstiréttur íslands
Nr. 2020-104
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Nauðungarsala
- Veðskuldabréf
- Skaðabætur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir.
Með beiðni 2. apríl 2020 leitar þrotabú Gljúfurbyggðar ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 6. mars 2020 í máli nr. 397/2019: Þrotabú Gljúfurbyggðar ehf. gegn Vigdísi Þórarinsdóttur og gagnsök, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vigdís Þórarinsdóttir leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um viðurkenningu á skaðabótaskyldu gagnaðila vegna fjártjóns sem hlaust af nauðungarsölu á tiltekinni jörð. Upphaflegur stefndi málsins, Gunnar Andrés Jóhannsson, lést eftir að dómur féll í héraði og tók ekkja hans við aðild að málinu. Héraðsdómur taldi að kröfur leyfisbeiðanda væru fallnar niður sökum fyrningar og sýknaði stefnda. Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms með fyrrgreindum dómi en á þeim grunni að leyfisbeiðanda hefði ekki tekist að sanna að nánar tilgreind veðskuldabréf, sem voru með veð í jörðinni, hefðu verið í skilum þegar krafist var nauðungarsölu á jörðinni eða þau komist í skil eftir það tímamark.
Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni til. Telur hann meðal annars að sönnunarbyrði um að hann hafi efnt greiðsluskyldu sína á nánar tilgreindum gjalddögum, hafi ranglega verið lögð á hann í hinum áfrýjaða dómi. Þá hafi honum ekki gefist kostur á að leggja fram sannanir á milli dómstiga vegna forsendna dóms héraðsdóms. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að málið hafi verulegt almennt gildi auk þess sem það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína.
Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður hvorki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi til né efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Er beiðninni því hafnað.