Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-100

Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari)
gegn
Pétri Jökli Jónassyni (Hilmar Gunnarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fíkniefnalagabrot
  • Tilraun
  • Ávana- og fíkniefni
  • Sönnun
  • Ákæra
  • Réttlát málsmeðferð
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 15. apríl 2025 leitar Pétur Jökull Jónasson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 10. sama mánaðar í máli nr. 701/2024: Ákæruvaldið gegn Pétri Jökli Jónassyni. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Leyfisbeiðandi var ákærður fyrir tilraun til stórfellds fíkniefnalagabrots með því að hafa ásamt fleirum, sem þegar höfðu hlotið dóm fyrir sinn þátt í málinu, staðið að innflutningi á 99,25 kg (með 81%–90% styrkleika) af kókaíni hingað til lands frá Brasilíu með viðkomu í Rotterdam í Hollandi. Brot ákærða töldust varða við 173. gr. a, sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

4. Leyfisbeiðandi var með dómi héraðsdóms sakfelldur samkvæmt ákæru og gert að sæta átta ára fangelsi. Landsréttur vísaði til þess að þegar hefði verið leyst úr ágreiningi um þau atriði sem lytu að frávísun með úrskurði réttarins 25. júní 2024 í máli nr. 513/2024. Með sömu röksemdum og þar voru raktar var frávísunarkröfu leyfisbeiðanda á þessum grunni hafnað. Um sýknukröfu leyfisbeiðanda tók Landsréttur fram að með dómi réttarins 24. nóvember 2023 í máli nr. 342/2023 hefðu fjórir aðrir einstaklingar, A, B, C og D, verið sakfelldir fyrir tilraun til stórfellds fíkniefnalagabrots með því að hafa ásamt óþekktum aðila staðið að innflutningi á 99,25 kg af kókaíni til landsins. Taldi Landsréttur að virtum nánar tilteknum símagögnum að athugasemdir leyfisbeiðanda fengju ekki haggað þeirri ályktun héraðsdóms að hann hefði á þeim tíma sem um ræddi notað nánar tiltekin Signal-auðkenni og verið í samskiptum við fyrrgreindan B við skipulagningu fyrrgreinds brots en eitt símanúmeranna fannst einnig vistað í farsíma fyrrgreinds D. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að sannað væri að leyfisbeiðandi hefði verið samverkamaður dómfelldu A, B, C og D samkvæmt dómi Landsréttar í máli nr. 342/2023 við tilraun til stórfellds fíkniefnalagabrots eins og lýst væri í ákæru. Hinn áfrýjaði dómur var því staðfestur.

5. Leyfisbeiðandi telur brýnt að fá úrlausn Hæstaréttar um hvort vísa eigi málinu frá vegna óskýrleika ákæru. Þá hafi verknaðarlýsing í ákæru verið orðuð með almennum og opnum hætti og sakfelling hans í Landsrétti byggi á öðrum atriðum en í ákæru, það er skipulagningu, milligöngu og einhvers konar stýringu erlendis frá. Enn fremur telur leyfisbeiðandi að við lögreglurannsókn hafi verið brotið gegn rétti hans til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 þegar upptökur af framburði hans hjá lögreglu voru notaðar til að framkvæma raddgreiningu. Leyfisbeiðandi telur að í ljósi alls þessa sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur. Þá sé dómurinn í andstöðu við regluna um milliliðalausa sönnunarfærslu en engin slík sönnunarfærsla hafi farið fram hjá Landsrétti um lykilsönnunargagn og engin vitni borið um aðkomu leyfisbeiðanda að málinu. Að lokum sé mikilvægt að fá umfjöllun Hæstaréttar um þyngd viðurlaga.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Beiðninni er því hafnað.