Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-16

A (Þórdís Bjarnadóttir lögmaður)
gegn
B (Kristinn Bjarnason lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Erfðaskrá
  • Dánarbú
  • Opinber skipti
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.

2. Með beiðni 9. febrúar 2024 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., til að kæra úrskurð Landsréttar 29. janúar 2024 í máli nr. 806/2023: A gegn B. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila varðar gildi erfðaskrár frá árinu 2007 en arfleifandi lést árið 2022. Leyfisbeiðandi er bróðir hins látna og eini lögerfingi hans. Hann krefst ógildingar erfðaskrárinnar annars vegar þar sem lögbókandandi vottaði ekki um andlega heilsu arfleifanda í vottorði sínu og hins vegar vegna óskýrleika í erfðaskránni um arfleiðslu hins látna.

4. Með úrskurði Landsréttar var staðfestur úrskurður héraðsdóms um að hafna kröfu leyfisbeiðanda um ógildingu erfðaskrárinnar. Í úrskurði Landsréttar var tekið mið af meginreglu íslensks erfðaréttar um að skýra bæri erfðaskrá þannig að náð yrði þeim vilja arfleifanda sem þar kæmi fram eða sannað þætti að fyrir honum hefði vakað við erfðaráðstöfun. Jafnframt yrði að meta hver viðbrögð hans við breyttum aðstæðum hefðu orðið hefðu þau atvik verið þekkt við gerð erfðaskrárinnar. Landsréttur lagði til grundvallar að það hefði verið bæði markmið arfleifanda og forsenda fyrir gerð erfðaskrárinnar að eignir hans rynnu til góðgerðarstarfs og að gagnaðili hefði verið eini aðilinn sem var tilgreindur í því sambandi. Því var fallist á niðurstöðu héraðsdóms um að það hefði verið ætlun arfleifanda að nær allar veraldlegar eigur hans skyldu renna til gagnaðila. Að öðru leyti var úrskurður héraðsdóms staðfestur með vísan til forsendna hans. Þar var talið að í lögbókandavottorði hefði skort á upplýsingar um hvort arfleifandi hefði verið svo heill heilsu andlega að hann hefði verið fær um að ráðstafa eigum sínum með erfðaskrá á skynsamlegan hátt, eins og áskilið er í 2. mgr. 42. gr., sbr. 1. mgr. 43. gr., erfðalaga nr. 8/1962. Af því leiddi að á gagnaðila hvíldi sönnunarbyrði fyrir því að arfleifandi hefði fullnægt hæfisskilyrðum 2. mgr. 34. gr. laganna þegar hann undirritaði erfðaskrána. Þegar heildstætt var litið til atvika allra var það mat dómsins að ekkert lægi fyrir annað en að arfleifandi hefði fullnægt hæfisskilyrðum 34. gr. erfðalaga við undirritun erfðaskrárinnar.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að hinn kærði úrskurður stríði gegn meginreglum erfðaréttar þar sem í erfðalögum og dómaframkvæmd sé kveðið skýrt á um að séu annmarkar á arfleiðsluvottorði beri sá sem byggir rétt sinn á erfðaskrá sönnunarbyrði fyrir því að annmarkarnir leiði ekki til ógildingar hennar. Að mati leyfisbeiðanda er nauðsynlegt að Hæstiréttur skeri úr um hvort fyrrgreind meginregla sé breytt eða hvort slakað sé á sönnunarbyrði þegar um annmarka á arfleiðsluvottorði lögbókanda sé að ræða eða þegar arftaki er góðgerðarsamtök. Leyfisbeiðandi vísar til þess að í hinum kærða úrskurði hafi ekkert verið vikið að annmörkum arfleiðsluvottorðsins og hvaða þýðingu það hafi fyrir réttarstöðu aðila og úrlausn málsins. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að niðurstaða hins kærða úrskurðar sé fordæmisgefandi um túlkun erfðaskráa, bæði hvað varðar eignaaukningu sem og ráðstöfun verðmæta sem ekki eru lengur til staðar þegar á erfðaskrá reynir. Að endingu vísar leyfisbeiðandi til þess að ranglega sé staðhæft í 17. lið úrskurðar Landsréttar að fram komi í b-lið 2. greinar erfðaskrárinnar að tilgreindar eignir skuli „renna til arftaka“. Þvert á móti sé engin arftaki tilgreindur í þeim lið erfðaskrárinnar en mikilvægt sé að Hæstiréttur leiðrétti þessa villu og meti hvaða þýðingu hún hafi.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að dómur í því geti haft slíkt fordæmisgildi að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar sömu málsgreinar á grundvelli þess að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni. Í því sambandi skiptir ekki máli sú ónákvæmni í 17. lið úrskurðarins sem leyfisbeiðandi vísar til.