Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-45
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Endurupptaka bótaákvörðunar
- Matsgerð
- Vanreifun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 14. mars 2025 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að kæra úrskurð Landsréttar 3. sama mánaðar í máli nr. 6/2025: A gegn TM tryggingum hf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að fyrri bótaákvörðun gagnaðila vegna umferðarslyss sem hann varð fyrir árið 2018 verði tekin upp að nýju samkvæmt 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
4. Með úrskurði Landsréttar var úrskurður héraðsdóms um frávísun málsins staðfestur. Landsréttur vísaði til þess að leyfisbeiðandi hefði óskað álits þriggja sérfræðinga á því hvort ófyrirsjáanlegar breytingar hefðu orðið á heilsu hans frá því miska- og örorkustig hans var metið vegna umferðarslyssins, sbr. 10. gr. skaðabótalaga. Óháð því hvort sönnun teldist liggja fyrir um að gagnaðili hefði verið boðaður til matsfundar væri ljóst að leyfisbeiðandi hefði aflað álitsins einhliða. Málinu hefði verið vísað frá héraðsdómi að lokinni aðalmeðferð á grundvelli vanreifunar. Samkvæmt því og bókun í þingbók hefði leyfisbeiðandi lýst gagnaöflun lokið og aðstæður því með öðrum hætti en í dómi Hæstaréttar 23. október 2017 í máli nr. 648/2017.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur. Vísar hann fyrir það fyrsta til þess að misskilningur felist í þeirri frávísunarástæðu að hann hafi ekki leitast við að hnekkja fyrri matsgerð með áliti örorkunefndar eða mati dómkvaddra matsmanna enda beri ekki að hnekkja henni heldur verði að byggja á þeirri matsgerð sem mælikvarða á hvort heilsufar hans hafi versnað. Í öðru lagi feli 1. mgr. 10. gr. skaðabótalaga í sér sönnunarhagræði sem gefi tjónþola færi á að biðja einhliða um sérfræðimat sem hinn bótaskyldi geti síðan skotið til örorkunefndar. Í þriðja lagi eigi deilur aðila í einkamálum um sönnunaratriði ekki að leiða til frávísunar. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að málið hafi verulegt almennt gildi um réttarstöðu tjónþola í málum sem höfðuð eru á grundvelli 11. gr. skaðabótalaga.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrlausn um kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni, geti haft fordæmisgildi eða grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar sömu málsgreinar á grundvelli þess að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.