Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-8

A (Magnús M. Norðdahl lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Óskar Thorarensen lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Útlendingur
  • Endurupptaka
  • Málsmeðferð
  • Rannsóknarregla
  • Stjórnsýsla
  • Ógilding
  • Stjórnvaldsákvörðun
  • Gjafsókn
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 8. janúar 2025 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 12. desember 2024 í máli nr. 828/2023: Íslenska ríkið gegn A. Gagnaðili telur skilyrði áfrýjunarleyfis ekki fyrir hendi en leggst ekki gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila er um hvort skilyrði sé til að taka upp að nýju umsókn leyfisbeiðanda um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kærunefnd útlendingamála staðfesti ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun […] 2020. Með úrskurðum […] og […] 2021 hafnaði kærunefndin beiðnum leyfisbeiðanda um endurupptöku. Í fyrri úrskurði var beiðni um endurupptöku einkum byggð á því að leyfisbeiðandi hefði ekki upplýst um kynhneigð sína við fyrri meðferð málsins. Seinni úrskurðurinn fjallaði um beiðni sem byggði einkum á að heilsufari leyfisbeiðanda hefði hrakað verulega frá uppkvaðningu úrskurðarins […] 2020.

4. Héraðsdómur ógilti úrskurð kærunefndar útlendingamála […] 2021 og taldi nefndina ranglega hafa metið trúverðugleika frásagnar leyfisbeiðanda um kynhneigð sína. Landsréttur sýknaði hins vegar íslenska ríkið. Rétturinn leit til þess að úrlausn um hvort kærunefndinni hefði verið skylt að endurupptaka mál leyfisbeiðanda réðist af því hvort upplýsingar í endurupptökubeiðnum hans hefðu haft áhrif á beitingu þeirra lagareglna sem lagðar voru til grundvallar í upphaflegum úrskurði hennar. Hefði úrskurður nefndarinnar […] 2021 ekki verið haldinn neinum annmörkum sem ættu að leiða til þess að hann yrði felldur úr gildi. Nefndin hefði gætt að rannsóknarskyldu sinni og lagt mat á trúverðugleika frásagnar leyfisbeiðanda. Landsréttur taldi jafnframt að skýrslur við aðalmeðferð málsins í héraði hefðu ekki hróflað við niðurstöðu kærunefndarinnar. Hvað varðar seinni úrskurð kærunefndarinnar taldi rétturinn að ekkert benti til annmarka við málsmeðferð. Þá væri hann ekki efnislega rangur.

5. Leyfisbeiðandi byggir á að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og telur aðkallandi að Hæstiréttur leggi dóm á beitingu nefndarinnar og Landsréttar á ólögfestu trúverðugleikamati og samverkan þess við skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Landsréttur hafi ekki tekið afstöðu til þess hvort skilyrði ákvæðisins hafi verið uppfyllt. Þá vísar hann einnig til þess að málið hafi verulegt almennt gildi fyrir rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, rannsóknarskyldu, endurskoðunarvald dómstóla og flóttamannarétt. Einnig hafi íslenska ríkið byggt á því að miða ætti úrlausn málsins við stöðu leyfisbeiðanda við uppkvaðningu úrskurðar kærunefndar útlendingamála en ekki við vitnaleiðslur og aðilaskýrslur fyrir dómi árið 2023 nema að því marki sem þær varði sjónarmið um „non-refoulement“. Þá varði málið einnig sérstaka hagsmuni leyfisbeiðanda. Standi dómurinn óraskaður leiði það til endursendingar hans til heimalands síns þar sem samkynhneigðir megi þola fangelsisrefsingu, ómannúðlega og vanvirðandi meðferð. Margar málsástæður sem líf leyfisbeiðanda velti á hafi aldrei fengið úrlausn stjórnvalda. Að lokum byggir leyfisbeiðandi á að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni til. Þar vísar hann einkum til mats réttarins á kynhneigð sinni og beitingar á ákvæðum laga nr. 91/1991.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.