Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-59

Sjóvá-Almennar tryggingar hf. (Kristín Edwald lögmaður)
gegn
A (Haukur Freyr Axelsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skaðabótamál
  • Vátrygging
  • Líkamstjón
  • Viðurkenningarkrafa
  • Orsakatengsl
  • Sönnun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 18. apríl 2024 leita Sjóvá-Almennar tryggingar hf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 22. mars sama ár í máli nr. 164/2023: A gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort leyfisbeiðandi, sem vátryggjandi eiganda húsnæðis þar sem gagnaðili varð fyrir slysi, beri ábyrgð á tjóni hans vegna þess. Slysið varð er gagnaðili féll í tröppum við húsnæðið.

4. Með héraðsdómi var leyfisbeiðandi sýknaður af kröfum gagnaðila. Með dómi Landsréttar var hins vegar fallist á kröfur gagnaðila. Landsréttur taldi gagnaðila hafa sannað að tröppurnar hefðu ekki á slysdegi fullnægt kröfum sem fram komu í byggingarsamþykkt Reykjavíkur nr. 195/1945, sem var í gildi þegar húsnæðið var byggt. Þá vísaði Landsréttur til þess að í húsinu hefði verið rekinn veitingastaður og að starfseminni fylgdu sérstakar skyldur húseiganda eða rekstraraðila fasteignar að gæta vel að öllum aðstæðum og öryggi gesta, meðal annars að því er varði stiga og tröppur. Taldi Landsréttur að margvíslegur vanbúnaður hefði verið á umræddum tröppum á slysdegi sem aukið hefði á hættueiginleika þeirra. Var tryggingartakinn talinn bera ábyrgð á þeim vanbúnaði. Ekki var fallist á að um óhappatilvik hefði verið að ræða eða að gagnaðili hefði sýnt af sér gáleysi. Þótt því yrði ekki slegið föstu hvað nákvæmlega olli því að gagnaðili féll taldi Landsréttur langlíklegast að slysið yrði rakið til hættueiginleika trappanna. Að því gættu þótti mega slá því föstu að þeir ágallar hefðu verið megin orsök þess að gagnaðili féll. Var því tekin til greina krafa um viðurkenningu bótaskyldu úr húseigendatryggingu.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Tröppur sem þessar séu algengar við hús byggð á svipuðum tíma. Jafnframt sé með dómi Landsréttar slakað svo á sönnunarkröfum um málsatvik og orsakatengsl að nær hlutlæg ábyrgð sé lögð á fasteignareiganda. Leyfisbeiðandi byggir einnig á því að niðurstaða Landsréttar sé bersýnilega röng, einkum þar sem mat á orsök og orsakatengslum sé rangt og vikið hafi verið frá meginreglu skaðabótaréttar og réttarfars um sönnunarbyrði tjónþola um orsök tjóns síns.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.