Hæstiréttur íslands
Nr. 2021-320
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Kæruheimild
- Forsjá
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 13. desember 2021 leitar B leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 30. nóvember sama ár í málinu nr. 700/2021: A gegn B. Um kæruheimild er vísað til 168. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að ágreiningi aðila um forsjá dóttur þeirra, lögheimili, umgengni og meðlag. Með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands 3. nóvember 2021 var málinu vísað frá dómi. Í framangreindum úrskurði Landsréttar var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Í niðurstöðu Landsréttar kom fram að fullnægjandi sáttameðferð samkvæmt 33. gr. a. barnalaga nr. 76/2003 hefði farið fram fyrir höfðun málsins. Væru því ekki efni til að vísa málinu frá héraðsdómi.
4. Leyfisbeiðandi byggir á því að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni þar sem það hafi fordæmisgildi um túlkun og beitingu 33. gr. a. laga nr. 76/2003. Þá er byggt á því að úrskurður Landsréttar sé rangur í verulegum atriðum þar sem hann víki frá framangreindu lagaákvæði og fordæmum bæði Landsréttar og Hæstaréttar.
5. Leyfisbeiðandi tilgreinir ekki þá kæruheimild sem beiðnin er reist á. Getur kæra á úrskurði Landsréttar í máli þessu ekki stuðst við neina þeirra heimilda sem taldar eru í 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt 2. mgr. 167. gr. laganna er unnt að sækja um leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurði Landsréttar í kærumálum þegar svo er mælt fyrir í öðrum lögum. Sérstaka kæruheimild um það efni sem hér um ræðir er ekki að finna í öðrum lögum og er reyndar tekið fram í 5. mgr. 35. gr. laga nr. 76/2003 að aðrir úrskurðir Landsréttar en mælt er fyrir um í 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 verði ekki kærðir til Hæstaréttar. Beiðninni er því hafnað.