Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-143

A (Hulda Rós Rúriksdóttir lögmaður)
gegn
B (Valgerður Valdimarsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Dánarbú
  • Opinber skipti
  • Búsetuleyfi
  • Erfðaskrá
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Björg Thorarensen og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 9. október 2025 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., til að kæra úrskurð Landsréttar 25. september sama ár í máli nr. 631/2025: A gegn B. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta varðar kröfu leyfisbeiðanda um að dánarbú C verði tekið til opinberra skipta og að leyfi gagnaðila til setu í óskiptu búi verði fellt úr gildi. Gagnaðili er stjúpmóðir leyfisbeiðanda og situr í óskiptu búi eftir eiginmann sinn á grundvelli fyrirmæla í erfðaskrá. Leyfisbeiðandi byggir einkum á því að faðir sinn hafi við undirritun erfðaskrárinnar verið með langt genginn hrörnunarsjúkdóm og að ákvörðun sýslumanns um búsetuleyfi geti því ekki byggst á henni.

4. Landsréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að hafna kröfum leyfisbeiðanda með vísan til forsendna en að viðbættum frekari röksemdum. Landsréttur rakti að hafi maki þess látna fengið leyfi til setu í óskiptu búi verði krafa erfingja um að dánarbú skuli tekið til opinberra skipta að styðjast við heimild í erfðalögum nr. 8/1962, sbr. 3. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991. Þurfi því að vera fyrir hendi einhver þau atvik sem veiti erfingja heimild samkvæmt 13. til 17. gr. erfðalaga til að krefjast opinberra skipta. Landsréttur taldi að leyfisbeiðandi hefði ekki sýnt fram á að svo væri. Í úrskurði héraðdóms var meðal annars lagt til grundvallar að ráðstöfunin í erfðaskránni hefði ekki verið óskynsamleg eða óeðlileg eftir atvikum og því hafnað að fella úr gildi ákvörðun sýslumanns um búsetuleyfi á þeirri forsendu að leyfið hefði ekki getað grundvallast á erfðaskránni. Þá var heldur ekki fallist á sjónarmið sem byggðu á annmörkum við meðferð sýslumanns á erindi leyfisbeiðanda.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrskurður í málinu kunni að hafa fordæmisgildi um sambærileg tilvik. Gagnaðila hafi verið veitt leyfi til setu í óskiptu búi einungis nokkrum dögum eftir andlát föður leyfisbeiðanda og áður en hann var jarðaður. Leyfisbeiðanda hafi því ekki gefist ráðrúm til að vefengja erfðaskrána áður en gagnaðili fékk leyfi til setu í óskiptu búi. Leyfisbeiðandi telur það ekki samræmast ákvæðum erfðalaga að eftirlifandi maki, sem ætlar að sitja í óskiptu búi samkvæmt erfðaskrá, njóti slíkrar heimildar á grundvelli þess að hafa leitað nógu fljótt til sýslumanns. Ljóst sé að slík niðurstaða rýri rétt leyfisbeiðanda enda geti hún aðeins vefengt gildi erfðaskrár við opinber skipti á dánarbúi.

6. Að virtum gögnum málsins verður talið að úrlausn um kæruefnið geti haft fordæmisgildi þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Beiðni um kæruleyfi er því samþykkt.