Hæstiréttur íslands
Nr. 2021-335
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Ógildingarkrafa
- Skuldabréf
- Framsal
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 30. desember 2021 leitar Lyf og heilsa hf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 3. sama mánaðar í máli nr. 52/2021: Lyf og heilsa hf. gegn þrotabúi Karls Emils Wernerssonar á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Leyfisbeiðandi höfðaði mál þetta samkvæmt XVIII. kafla laga nr. 91/1991 til ógildingar á nánar tilgreindu skuldabréfi. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort skuldabréfið hafi verið framselt félaginu AMK ehf. eða hvort það hafi verið greitt upp og þar með hafi kröfu- og veðréttindi samkvæmt því fallið niður.
4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms þar sem fyrrgreindri kröfu leyfisbeiðanda var hafnað. Í dómi Landsréttar var meðal annars á því byggt að AMK ehf. hefði ekki verið aðili að því réttarsambandi sem stofnað hefði verið til með útgáfu skuldabréfsins og án skyldu greitt það upp án þess að krafa samkvæmt því hefði verið framseld félaginu. Þar með hefðu kröfuréttindi samkvæmt skuldabréfinu fallið niður ásamt veðréttindum sem voru til tryggingar greiðslu þess.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrlausn málsins hafi verulegt almennt gildi um réttarreglur kröfuréttar um kaup eða greiðslu þriðja manns á kröfu. Einnig byggir hann á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til þar sem öll gögn málsins bendi til þess að um kaup á skuldabréfinu hafi verið að ræða en ekki uppgreiðslu þess. Þar vísar hann einkum til samtímagagna, framburðar endurskoðanda og fyrirsvarmanns AMK ehf. fyrir dómi, yfirlýsingar fyrirsvarsmanns seljanda skuldabréfsins og þess að ekki liggi fyrir nein fullnaðarkvittun vegna uppgreiðslu þess. Þá telur hann atvik máls í dómi Hæstaréttar 7. janúar 1997 í máli nr. 475/1996 sem Landsréttur vísi til í niðurstöðu sinni ósambærileg atvikum máls þessa. Loks varði málið sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína.
6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð hafi verið stórlega ábótavant eða að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.