Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-124

Landsnet hf. (Pétur Örn Sverrisson lögmaður) og Orkustofnun (Fanney Rós Þorsteinsdóttir lögmaður)
gegn
Landsvirkjun (Jóhannes Karl Sveinsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Lagaheimild
  • Gjaldtaka
  • Raforka
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðnum 16. og 17. nóvember 2023 leita Landsnet hf. og Orkustofnun leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til að áfrýja dómi Landsréttar 20. október sama ár í máli nr. 191/2023: Landsnet hf. og Orkustofnun gegn Landsvirkjun. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur í máli þessu lýtur að því hvort raforkulög nr. 65/2003 geymi viðhlítandi lagaheimild fyrir álagningu og innheimtu svonefnds aflgjalds vegna innmötunar raforku á flutningskerfi raforku sem gagnaðila var gert að greiða leyfisbeiðanda Landsneti hf. samkvæmt gjaldskrá fyrir flutning á raforku og kerfisþjónustu nr. 43, sem tók gildi 1. apríl 2022.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að ekki mætti leiða af 12. gr. raforkulaga heimild til töku aflgjalds. Í dóminum var rakið að samkvæmt 1. mgr. 12. gr. a raforkulaga skyldi leyfisbeiðandinn Landsnet hf. setja sér gjaldskrá vegna þjónustu sinnar og gjaldskráin skyldi gilda fyrir úttekt dreifiveitna frá flutningskerfi og úttekt stórnotenda. Hafi því ekki verið forsendur til annars en að líta svo á að gjaldtaka samkvæmt gjaldskrá skyldi einungis vera bundin við úttektir í framangreindum skilningi. Þá taldi dómurinn að ekki yrði séð að leiða mætti heimild til töku aflgjalds af ákvæðum 12. gr. raforkulaga um tekjumörk flutningsfyrirtækis eða öðrum ákvæðum þeirra. Var ekki fallist á að byggja mætti slíka gjaldtökuheimild á athugasemdum við 7. gr. í frumvarpi til laga nr. 19/2011 sem breyttu raforkulögum. Var meðal annars horft til þess að innmötunargjald hafði ekki verið innheimt um nokkurt skeið þegar frumvarp til laganna var upphaflega lagt fram.

5. Leyfisbeiðandinn Landsnet hf. byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Með niðurstöðu dóms Landsréttar sé uppi veruleg óvissa um hvort Landsneti sé heimilt að innheimta allan kostnað af rekstri flutningskerfisins þrátt fyrir tekjumörk sem mælt er fyrir um í 12. gr. raforkulaga. Þá telur leyfisbeiðandi að niðurstaðan sé í andstöðu við grundvöll raforkulaga og þeirra EES-reglna sem þeim var ætlað að innleiða en túlka verði íslensk lög til samræmis við ákvæði EES-samningsins. Leyfisbeiðandi vísar einnig til þess að niðurstaðan varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni hans því umrætt gjald hafi numið 1.547.064.498 krónum fyrir árið 2022 og 1.551.593.631 krónu fyrir 2023. Að lokum byggir leyfisbeiðandi á því að forsendur Landsréttar um gjaldtökuheimild þágildandi 5. mgr. 12. gr. raforkulaga séu rangar.

6. Leyfisbeiðandinn Orkustofnun byggir á því að niðurstaða dóms Landsréttar valdi réttaróvissu um grundvöll gjaldskrár Landsnets hf. og þær forsendur sem tekjumörk byggist á. Þá gangi niðurstaðan í berhögg við 1. málslið 1. mgr. 12. gr. a., sbr. 1. mgr. 12. gr. raforkulaga. Að lokum byggir leyfisbeiðandi á því að málshöfðunarskilyrði 12. mgr. 30. gr. raforkulaga hafi ekki verið virt og af þeim sökum kunni að vera tilefni til að vísa málinu frá án kröfu.

7. Að virtum gögnum málsins verður talið að dómur í því geti haft fordæmisgildi meðal annars um túlkun gjaldtökuheimilda í lögum. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.