Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-111

Guðrún Björnsdóttir (Grímur Sigurðsson lögmaður)
gegn
Landsbankanum hf. (Andri Árnason lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Vextir
  • Veðskuldabréf
  • Uppgjör
  • Endurgreiðsla ofgreidds fjár
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 22. mars 2019 leitar Guðrún Björnsdóttir eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 22. febrúar sama ár í málinu nr. 590/2018: Guðrún Björnsdóttir gegn Landsbankanum hf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Landsbankinn hf. leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að uppgjöri krafna samkvæmt tveimur veðskuldabréfum sem gefin voru út af eiginmanni leyfisbeiðanda á árunum 2001 og 2003 og tryggð með veði í fasteign hennar. Lánin voru í íslenskum krónum en á árunum 2004 og 2005 mun skilmálum skuldabréfanna hafa verið breytt á þann hátt að skuld samkvæmt þeim tæki breytingum í samræmi við gengi á tilteknum erlendum gjaldmiðli. Á árunum 2011 og 2013 munu kröfur samkvæmt skuldabréfunum hafa verið reiknaðar út á ný vegna ólögmætis ákvæða bréfanna um gengistryggingu. Eiginmaður leyfisbeiðanda og gagnaðili munu síðan á árinu 2016 hafa gert samning um uppgjör skulda samkvæmt bréfunum og leyfisbeiðandi jafnframt undirritað yfirlýsingu um að við sölu fasteignarinnar sem stóð að veði fyrir skuldunum fengi gagnaðili framseldar kröfur um greiðslu söluverðsins til uppgjörs á þeim. Þær greiðslur munu hafa farið fram en leyfisbeiðandi höfðaði síðan mál þetta til endurgreiðslu á hluta þeirra og nam aðalkrafa hennar 41.696.543 krónum. Í dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu gagnaðila á þeim grunni að komist hefði á bindandi samkomulag um lokauppgjör og hefði leyfisbeiðandi ekki sýnt fram á að það fæli í sér ofgreiðslu vaxta eða að það væri ósanngjarnt að öðru leyti.

Leyfisbeiðandi byggir á því að meðferð málsins fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant þar sem ekki hafi verið farið að lögum við skipun eins af dómurunum sem þar fóru með það. Af þeim sökum hafi ekki verið fullnægt því skilyrði 1. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, að skipan dómstóls hafi verið ákveðin með lögum, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu 12. mars 2019 í máli nr. 26374/18, og verði því að ómerkja dóm Landsréttar. Þá telur telur leyfisbeiðandi einnig að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til þar sem niðurstaðan byggi að öllu leyti á að fullnaðaruppgjör liggi fyrir milli skuldara og gagnaðila sem jafnframt hafi bundið leyfisbeiðanda. Að lokum telur leyfisbeiðandi að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi auk þess sem málið varði mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sína.

Að virtum fyrirliggjandi gögnum reynir í málinu á álitaefni um skuldbindingargildi samnings gagnvart þriðja manni svo og túlkun hans. Er beiðni um áfrýjunarleyfi því tekin til greina.