Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-130
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Aðför
- Útburðargerð
- Leigusamningur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Karl Axelsson, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 27. nóvember 2023 leitar THC ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 5. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, til að kæra úrskurð Landsréttar 15. nóvember sama ár í máli nr. 675/2023: THC ehf. gegn Skeifunni ehf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Ágreiningur aðila lýtur að kröfu gagnaðila um að leyfisbeiðandi verði með beinni aðfarargerð borinn út úr fasteigninni Brautarholt 22-24 sem er í eigu gagnaðila.
4. Með úrskurði Landsréttar var staðfestur með vísan til forsendna úrskurður héraðsdóms um að gagnaðila væri heimilt að fá leyfisbeiðanda borinn út úr fasteigninni með beinni aðfarargerð. Fyrir lá að leyfisbeiðandi hafði fasteignina á leigu með tímabundnum leigusamningi 21. júní 2014 sem tók til leigutímabilsins 1. janúar 2015 til 31. desember 2030. Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að yfirlýsing gagnaðila um riftun 12. janúar 2023 hefði verið reist á ákvæði í viðauka við samning aðila sem hefði verið undirritaður 29. september 2022. Þar væri kveðið á um að það teldist veruleg vanefnd á samningsskuldbindingum leyfisbeiðanda sem réttlætti riftun ef bankatrygging að fjárhæð 46.000.000 króna yrði ekki lögð fram innan 90 daga. Gagnaðili framlengdi frestinn með tölvubréfi 28. desember 2022 og skoraði á leyfisbeiðanda að efna samningsskyldur sínar fyrir 11. janúar 2023. Í Landsrétti var lögð fram ábyrgðaryfirlýsing útgefin af Landsbankanum hf. 25. janúar 2023 til að ábyrgjast greiðslu leyfisbeiðanda til varnaraðila á allt að 45.000.000 króna. Lægi því ótvírætt fyrir að leyfisbeiðandi hefði ekki efnt samningsskuldbindingu sína um að afhenda bankatryggingu innan þess viðbótarfrests sem honum hefði verið veittur. Var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að ekki væri varhugavert að gerðin næði fram að ganga á grundvelli þeirra skjallegu sönnunargagna sem lágu fyrir í málinu. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að kæruefnið hafi fordæmisgildi annars vegar um skilyrði beitingar riftunar á grundvelli samningsákvæðis, meðal annars í tilvikum þar sem sá er beiti riftun sé upplýstur á tímamarki hennar um fullnægjandi efndir riftunarþola. Hins vegar um skýrleikakröfur 78. og 83. gr. laga nr. 90/1989 enda reyni í málinu á margvísleg álitaefni sem séu grundvallaratriði við mat á skilyrðum útburðargerða. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að kæruefnið hafi grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins. Loks byggir leyfisbeiðandi á því úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, einkum þar sem riftun hafi verið ólögmæt auk þess sem því skilyrði hafi ekki verið fullnægt að réttindi gagnaðila væru nægilega ljós, sbr. 78. gr. laga nr. 90/1989.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að kæruefnið hafi slíkt fordæmisgildi að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu á grundvelli þess að hin kærða dómsathöfn sé bersýnilega röng að efni til. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.