Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-307

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X (Páll Rúnar M. Kristjánsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Líkamsárás
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari Þorgeir Örlygsson hæstaréttardómari og Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir fyrrverandi hæstaréttardómarar.

Með beiðni 11. október 2019 leitar X eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 20. september sama ár í málinu nr. 669/2018: Ákæruvaldið gegn X, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr., 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið telur ekki efni til að verða við beiðninni.

Með fyrrnefndum dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir að hafa brotið gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa tekið fyrrum sambúðarkonu sína kyrkingartaki og þrengt að öndunarvegi hennar með nánar tilgreindum afleiðingum. Var refsing leyfisbeiðanda ákveðin fangelsi í tólf mánuði. Þá var honum gert að greiða brotaþola bætur.

Leyfisbeiðandi telur að skilyrðum 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis sé fullnægt. Byggir hann á því að málsmeðferð fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant þar sem engin endurskoðun hafi farið fram á trúverðugleika framburðar sem sakfelling hafi byggst á. Þá hafi þinghaldi verið lokað án þess að fullnægjandi ástæður lægju þar að baki. Leyfisbeiðandi byggir einnig á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur þar sem sakfelling hans hafi ranglega verið reist á skýrslu réttarmeinafræðings um áverka brotaþola. Þá telur hann að héraðsdómur og Landsréttur hafi ranglega heimfært háttsemi sína undir 1. mgr. sbr. 2. mgr. 218. gr. b, enda hafi hann hvorki endurtekið né á alvarlegan hátt ógnað lífi, heilsu eða velferð brotaþola.

Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að leyfisbeiðni lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. fyrrgreindrar lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt fyrst og fremst á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar leyfisbeiðanda og brotaþola en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Er beiðninni því hafnað.