Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-74

Brúarreykir ehf. (Jón Jónsson lögmaður)
gegn
Bjarna Bærings Bjarnasyni (Sigurður G. Guðjónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skaðabætur
  • Einkahlutafélag
  • Orsakatengsl
  • Sennileg afleiðing
  • Rekstrartap
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 5. júní 2024 leita Brúarreykir ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 10. maí sama ár í máli nr. 4/2023: Brúarreykir ehf. gegn Bjarna Bærings Bjarnasyni og gagnsök. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Málið lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um skaðabætur úr hendi gagnaðila. Með dómi Landsréttar 5. apríl 2019 í máli nr. 594/2018 hafði verið viðurkennt að gagnaðili bæri skaðabótaábyrgð á tjóni leyfisbeiðanda sem hann hefði sem framkvæmdastjóri félagsins valdið með aðgerðum og aðgerðarleysi við búrekstur félagsins í aðdraganda þess að dreifing afurða frá búinu var bönnuð.

4. Með héraðsdómi var gagnaðili dæmdur til að greiða leyfisbeiðanda að álitum 8.000.000 króna í skaðabætur en með dómi Landsréttar var gagnaðili sýknaður af öllum kröfum leyfisbeiðanda. Í aðdraganda málshöfðunar var að beiðni leyfisbeiðanda dómkvaddur matsmaður til að leggja mat á tjón hans. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að á matsgerðinni væru ýmsir annmarkar þess eðlis að ekki væri unnt að horfa til hennar til stuðnings aðal- og varakröfu leyfisbeiðanda. Um kröfu hans til þrautavara um bætur að álitum tók Landsréttur fram að hann hefði kosið að haga kröfugerð sinni með þeim hætti að draga skyldi söluandvirði greiðslumarks og varanlegra rekstrarfjármuna frá kröfu um ætlað rekstrartjón. Hefði lögmaður leyfisbeiðanda staðfest að sú aðferðarfræði gilti einnig um þrautavarakröfu. Fælist í því ákveðin þversögn þar sem tilvist greiðslumarks og umræddra varanlegra rekstrarfjármuna mótuðu grundvöll fyrir kröfu hans um bætur fyrir ætlað rekstrartjón. Komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að ekki yrði ráðið af gögnum málsins að tjón leyfisbeiðanda hefði numið hærri fjárhæð en söluandvirði eignanna. Var gagnaðili því jafnframt sýknaður af þrautavarakröfu um bætur að álitum.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins geti haft verulega almenna þýðingu um meginreglur skaðabótaréttar um sennilega afleiðingu og takmörkun tjóns sem og beitingu
3. mgr. 108. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Þá varði málið mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda og eiganda helmings hlutar í félaginu. Leyfisbeiðandi telur enn fremur að málsmeðferð hafi verið stórlega ábótavant og dómur Landsréttar rangur einkum að því er varðar niðurstöðu um þrautavarakröfu hans sem feli í sér þversögn. Tekur leyfisbeiðandi fram að í svari lögmanns hans fyrir dómi hafi verið staðfest að kæmi krafa um bætur að álitum til umfjöllunar væri hægt að nálgast ákvörðun þeirra með tilliti til aðferða í matsgerð. Í svarinu hafi hins vegar ekki falist að ákvörðun bóta að álitum yrði einungis byggð á þeirri aðferð að draga tekjur af sölu eigna frá rekstrartjóni. Loks hafi ekki verið fjallað um allar málsástæður leyfisbeiðanda fyrir Landsrétti.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.