Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-133

Bjarni Skarphéðinn G. Bjarnason, Kolbrún Þorsteinsdóttir, Jón Þorsteinsson, Inga Lucia Þorsteinsdóttir, Jöklasýn ehf., Elías Gunnarsson, Hríshóll ehf., Lækjarhús ehf. og Þóra Björg Gísladóttir (Ólafur Björnsson lögmaður)
gegn
Þóru Guðrúnu Ingimarsdóttur, Bjarna Maríusi Jónssyni (Þórður Bogason lögmaður) og til réttargæslu Þjóðkirkjunni (Eiríkur Guðlaugsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Landamerki
  • Jörð
  • Eignarréttur
  • Hefð
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 16. júlí 2025 leita Bjarni Skarphéðinn G. Bjarnason, Kolbrún Þorsteinsdóttir, Jón Þorsteinsson, Inga Lucia Þorsteinsdóttir, Jöklasýn ehf., Elías Gunnarsson, Hríshóll ehf., Lækjarhús ehf. og Þóra Björg Gísladóttir leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 19. júní sama ár í máli nr. 909/2023: Bjarni Skarphéðinn G. Bjarnason, Kolbrún Þorsteinsdóttir, Jón Þorsteinsson, Inga Lucia Þorsteinsdóttir, Jöklasýn ehf., Elías Gunnarsson, Hríshóll ehf., Lækjarhús ehf. og Þóra Björg Gísladóttir gegn Þóru Guðrúnu Ingimarsdóttur og Bjarna Maríusi Jónssyni og til réttargæslu Þjóðkirkjunni og gagnsök. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.

3. Mál þetta varðar landamerki jarðanna Borgarhafnar og Kálfafellsstaðar í Suðursveit í sveitarfélaginu Hornafirði. Ágreiningur er um landamerki á nyrsta hluta jarðanna frá botni Staðardals að jökli. Merkjunum er lýst í landamerkjabréfum jarðanna sem voru skráð annars vegar 1922 og hins vegar 1923. Í báðum merkjalýsingum kemur fram að Staðará ráði mörkum jarðanna. Orðalag þeirra er þó ekki fyllilega samhljóða.

4. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um að nyrsti hluti landamerkja jarðanna skuli liggja frá jökuljaðri Skálafellsjökuls til suðurs eftir farvegi vatns í Innra-Þormóðarhnútugili að Hálsagili og þaðan eftir farvegi í miðju Hálsagils að botni Staðardals þar sem hann mæti jökulvatni úr Sultartungnagili. Landsréttur féllst á með héraðsdómi að merki jarðanna fylgi kvísl Staðarár sem renni um Hálsagil allt að upptökum árinnar. Að því gættu stóð eftir að ákvarða merki jarðanna við upptök Staðarár næst Skálafellsjökli þar sem nokkur gil komi saman og myndi Hálsagil. Gögn málsins þóttu ekki slá föstu hver meginupptök Staðarár voru við ritun landamerkjabréfanna eða taka af skarið um merki jarðanna svo nærri jökli. Því var í dóminum litið til fleiri atriða en meginupptaka árinnar. Í því efni var meðal annars litið til þess hvernig eigendur jarða hefðu umgengist svæðið og viðhorf þeirra til eignarhalds á því. Lagt var til grundvallar að eigandi Kálfafellsstaðar hefði farið með tiltekna spildu innan svæðisins sem sína eign í fullan hefðartíma samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð. Þótti það styðja að mörk jarðanna skyldu miðast við Innra-Þormóðarhnútugil sem lægju austan við spilduna. Þar að auki hefðu landeigendur fyrir óbyggðarnefnd miðað mörk eignarlanda sinna við tiltekinn punkt við jökulröndina norðan Innra-Þormóðarhnútugils. Var það jafnframt mat dómsins að gilið væri greinilegt kennileiti í landinu.

5. Leyfisbeiðendur byggja á því í fyrsta lagi að úrlausn málsins hafi verulegt almennt gildi, einkum sem fordæmi fyrir mál sem varða ágreining um eignarrétt og landamerki á jökuljaðri. Í öðru lagi varði málið sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda og hafi bein áhrif á eignarrétt þeirra að stóru landsvæði sunnan við Vatnajökul. Í þriðja lagi byggja leyfisbeiðendur á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til og málsmeðferð verið stórlega ábótavant. Þannig sé niðurstaða réttarins í ósamræmi við mat dómkvaddra manna, bæði í undir- og yfirmati. Þá vísa leyfisbeiðendur til þess að engin krafa hafi verið í héraði um að miða merki jarðanna við Innra-Þormóðarhnútugil, að túlkun dómsins á skilyrðum hefðar samræmist ekki dómaframkvæmd, ekki standi heimild til að miða niðurstöðu málsins við uppdrátt kortagerðarmanna í þjóðlendumáli og þýðing fyrirliggjandi landamerkjabréfa hafi ekki verið metin nægjanlega vel af Landsrétti. Loks skorti fullnægjandi rökstuðning fyrir niðurstöðum dómsins sem fari þannig gegn 114. gr. laga nr. 91/1991.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.