Hæstiréttur íslands
Nr. 2021-94
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Börn
- Barnavernd
- Kæruheimild
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
Með beiðni 31. mars 2021 leitar A leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 19. sama mánaðar í málinu nr. 156/2021: A gegn barnaverndarnefnd Reykjavíkur. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að úrskurði gagnaðila 10. febrúar 2021 um vistun dóttur leyfisbeiðanda utan heimilis í tvo mánuði frá þeim degi að telja, sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Leyfisbeiðandi skaut úrskurði gagnaðila til héraðsdóms 22. sama mánaðar, sbr. 2. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga, og var málið rekið eftir XI. kafla, sbr. 3. mgr. 27. gr. sömu laga. Með úrskurði héraðsdóms 5. mars 2021 var úrskurður gagnaðila staðfestur. Leyfisbeiðandi skaut úrskurði héraðsdóms til Landsréttar 9. sama mánaðar með heimild í 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga. Með fyrrgreindum úrskurði Landsréttar var úrskurður héraðsdóms staðfestur. Fyrir héraðsdómi er nú rekið forsjársviptingarmál á hendur leyfisbeiðanda.
Samkvæmt 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er unnt að leita leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurði Landsréttar þegar svo er fyrir mælt í öðrum lögum. Í 64. gr. barnaverndarlaga er kveðið á um málskot í málum sem rekin eru samkvæmt XI. kafla laganna. Samkvæmt 3. mgr. 64. gr. laganna sæta úrskurðir Landsréttar um atriði sem talin eru upp í 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 kæru til Hæstaréttar. Ekki er fyrir hendi heimild til að óska í öðrum tilvikum eftir leyfi Hæstaréttar til að kæra til réttarins úrskurði Landsréttar í kærumálum samkvæmt XI. kafla barnaverndarlaga. Þegar af þessari ástæðu er beiðni um kæruleyfi hafnað.