Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-56

A (Agnar Þór Guðmundsson lögmaður)
gegn
Reykjavíkurborg (Anna Guðrún Árnadóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Vinnuslys
  • Kjarasamningur
  • Slysatrygging
  • Vanhæfi
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.

2. Með beiðni 12. apríl 2022 leitar A leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 25. mars 2022 í máli nr. 259/2021: A gegn Reykjavíkurborg á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um skaðabætur vegna líkamstjóns en ágreiningur aðila snýr að því hvort leyfisbeiðandi hafi orðið fyrir slysi í starfi eða utan starfs og þar með eftir hvaða reglum bótaréttur og uppgjör vegna slyssins skuli fara.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Slysið varð á starfsdegi á vinnustað leyfisbeiðanda eftir að skemmtidagskrá starfsmannafélags vinnustaðarins hafði hafist. Landsréttur vísaði til þess að skýrt hafi legið fyrir að formlegri dagskrá starfsdags vinnustaðarins hefði verið lokið þegar leyfisbeiðandi varð fyrir slysinu. Með því hefði viðveruskyldu leyfisbeiðanda á vinnustaðnum lokið. Var því ekki fallist á að slys hennar teldist vera vinnuslys í skilningi reglna nr. 1/90 um skilmála slysatryggingar starfsmanna gagnaðila vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir í starfi heldur giltu þar um reglur nr. 2/90 vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir utan starfs.

5. Leyfisbeiðandi byggir í fyrsta lagi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi til, en Kristbjörg Stephensen, einn dómara málsins í Landsrétti, hafi verið vanhæf á grundvelli b- og g-liða 5. gr. laga nr. 91/1991 þar sem hún hafi starfað sem borgarlögmaður þegar slys leyfisbeiðanda var tilkynnt til þess embættis. Leyfisbeiðandi byggir í öðru lagi á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi þar sem ekki hafi áður reynt á fyrir Hæstarétti hvenær aðili teljist vera „í starfi sínu“ í skilningi 1. mgr. 4. gr. reglna nr. 1/90. Þá leiði niðurstaðan til ósamræmis og óvissu um hvenær aðili teljist vera við vinnu ef mismunandi reglur gildi þar um, annars vegar í skilningi laga um slysatryggingar almannatrygginga nr. 45/2015 en hins vegar samkvæmt reglum nr. 1/90, þrátt fyrir að ákvæði þar um séu nánast samhljóða. Jafnframt hafi þetta í för með sér mismunandi réttarstöðu leikskólakennara eftir því hjá hvaða sveitarfélagi þeir starfi.

6. Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi um atriði sem leyfisbeiðnin er reist á. Er umsókn leyfisbeiðanda um áfrýjunarleyfi því tekin til greina.