Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-116
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Börn
- Dómkvaðning matsmanns
- Yfirmat
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 4. nóvember 2023 sem barst Landsrétti 7. sama mánaðar leitar B leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að kæra úrskurð Landsréttar 24. október 2023 í máli nr. 677/2023: A gegn B. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Ágreiningur aðila í þessum þætti málsins lýtur að kröfu gagnaðila um dómkvaðningu yfirmatsmanna til að meta með yfirmati forsjárhæfni aðila og tengd atriði.
4. Með úrskurði héraðsdóms var kröfunni hafnað en með úrskurði Landsréttar var fallist á hana. Landsréttur vísaði til þess að þótt mikilvægt væri að flýta meðferð málsins yrði ekki fallist á að hagsmunir barnsins af skjótri úrlausn væru þess eðlis að hafna bæri kröfu gagnaðila um yfirmatsgerð. Þá gæti heimild dómara samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 til að kveðja sérfróðan meðdómsmann til að taka sæti í dómi ekki staðið í vegi fyrir því að fallist yrði á kröfu gagnaðila. Var því ekki talin ástæða til að meina gagnaðila umbeðna sönnunarfærslu, sbr. 3. mgr. 42. gr. barnalaga nr. 76/2003.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að kæruefnið hafi ríkt fordæmisgildi enda hafi Hæstiréttur ekki áður fjallað um það hvenær beri að heimila dómkvaðningu yfirmatsmanna í málum um lögheimili barna. Málið varði stjórnarskrárbundin mannréttindi barna og foreldra, túlkun mannréttindasáttmála og alþjóðlegra skuldbindinga. Þá varði kæruefnið mikilsverða almannahagsmuni þar sem oft komi upp þær aðstæður í dómsmálum um forsjá, lögheimili og umgengni að annað foreldra virði ekki umgengnisúrskurð og takmarki umgengni barns við hitt foreldri meðan á málarekstri standi. Loks varði niðurstaða Landsréttar grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins þar sem sönnunargildi yfirmatsmatsgerða sé almennt meira en undirmatsgerða. Jafnframt hafi sá tími sem yfirmatið myndi taka þýðingu fyrir meðferð málsins.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrlausn um kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni, geti haft fordæmisgildi eða grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins þannig að fullnægt sé skilyrðum 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Enda þótt málið varði mikilvæga hagsmuni aðila og barns þeirra háttar svo almennt til í málum sem lúta að málefnum barna. Beiðni um kæruleyfi er því synjað.