Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-69

A (Óðinn Elísson lögmaður)
gegn
Vátryggingafélagi Íslands hf. (Einar Baldvin Axelsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Líkamstjón
  • Ábyrgðartrygging
  • Skaðabætur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

Með beiðni 4. mars 2021 leitar A eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 5. febrúar 2021 í málinu nr. 79/2020: Vátryggingafélag Íslands hf. gegn A, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um viðurkenningu á skyldu gagnaðila til greiðslu bóta úr ábyrgðartryggingu vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir á smurstöð vátryggingartaka er hann féll ofan í gryfju undir bifreið sinni sem var þar í viðgerð. Landsréttur sýknaði gagnaðila af kröfunni þar sem leyfisbeiðandi hefði ekki sýnt fram á að tjónið mætti rekja til atvika sem vátryggingartaki eða starfsmenn hans bæru ábyrgð á. Vísaði Landsréttur meðal annars til þess að leyfisbeiðanda hefðu ekki getað dulist öryggismerkingar í smurstöðinni og að ekki yrði metið starfsmönnum vátryggingartaka til sakar að hafa vikið frá leyfisbeiðanda enda hefðu þeir hvorki getað séð fyrir né mátt gera ráð fyrir að leyfisbeiðandi réðist sjálfur í að losa ljósaperu úr perustæði bifreiðar sinnar. Þá hefði leyfisbeiðandi ekki gert líklegt að gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað samkvæmt 65. og 65. gr. a laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum hefði breytt neinu þar um. Óhjákvæmilegt væri að líta svo á að slysið hefði orðið vegna óhappatilviks og aðgæsluleysis leyfisbeiðanda. Einn dómara Landsréttar skilaði sératkvæði og taldi skilyrði sakarreglu skaðabótaréttar uppfyllt í málinu en að bótaskyldu gagnaðila ætti aðeins að viðurkenna að helmingi vegna eigin sakar leyfisbeiðanda.

Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi verulegt almennt gildi um sakarmat í skaðabótamálum þar sem viðskiptavinur slasast þegar hann er að sækja sér þjónustu fyrirtækis og um gildi úttekta Vinnueftirlitsins við það mat. Þá hafi málið verulegt almennt gildi um þýðingu vanrækslu atvinnurekanda á að láta framkvæma lögbundið áhættumat þegar viðskipavinur slasast á skilgreindu hættusvæði. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína þar sem hann búi við varanlegar afleiðingar eftir slysið sem meðal annars hafi áhrif á tekjuöflunarhæfi hans. Þá telur hann niðurstöðu meirihluta Landsréttar bersýnilega ranga og í ósamræmi við dóma Hæstaréttar 11. nóvember 2010 í máli nr. 667/2009 og 13. mars 2008 í máli nr. 419/2007 og dóma Landsréttar 15. maí 2020 í máli nr. 494/2019 og 25. janúar 2019 í máli nr. 402/2018.

Gagnaðili leggst gegn beiðninni. Hann telur málið ekki hafa fordæmisgildi. Þá telur hann sakarmat meirihluta Landsréttar í samræmi við sakarmat í sambærilegum slysamálum og vísar til dóma Hæstaréttar 28. maí 2003 í máli nr. 560/2002 og 19. maí 2011 í máli nr. 522/2010.

Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið um sambærileg efni né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.