Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-33

Íslenska ríkið (Eiríkur Áki Eggertsson lögmaður)
gegn
A (Hörður Felix Harðarson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Réttaráhrif dóms
  • Skattur
  • Tekjuskattur
  • Skattrannsókn
  • Stjórnvaldsákvörðun
  • Endurákvörðun
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 15. mars 2024 leitar íslenska ríkið leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 1. sama mánaðar í máli nr. 807/2022: Íslenska ríkið gegn A og gagnsök. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur málsins varðar endurákvörðun opinberra gjalda gagnaðila fyrir gjaldárið 2015 þar sem henni voru færðar til tekna vantaldar tekjur sem raktar voru til úthlutunar úr einkahlutafélagi við afsal fasteignar til hennar án endurgjalds. Höfðaði gagnaðili málið til ógildingar á úrskurði ríkisskattstjóra um endurákvörðun opinberra gjalda hennar gjaldárið 2015 og úrskurði yfirskattanefndar þar sem því var hafnað að framangreindur úrskurður ríkisskattstjóra yrði felldur úr gildi.

4. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um að fallast á kröfur gagnaðila. Með dómi Landsréttar 8. apríl 2022 í máli nr. 216/2021 hafði gagnaðili verið sýknuð af ákæru í sakamáli þar sem reyndi á sömu skattalegu álitaefni og í þessu máli.

5. Með vísan til gagna þessa máls og þeirra atvika sem rakin voru í héraðsdómi lagði Landsréttur til grundvallar að ákvarðanir skattayfirvalda væru reistar á þeirri röngu forsendu að fasteigninni hefði verið ráðstafað án endurgjalds. Tók Landsréttur fram að það væri jafnframt í samræmi við þau atvik sem miðað var við í fyrrgreindum dómi réttarins í máli nr. 216/2021 en dómurinn hefði samkvæmt 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 4. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, fullt sönnunargildi um þau málsatvik sem í honum greindi þar til það gagnstæða væri sannað. Þá vísaði Landsréttur jafnframt til þess að gagnaðili hefði ekki lagt fram ný gögn eða með öðrum hætti hnekkt þeim atvikum sem fyrrgreindur dómur Landsréttar væri reistur á.

6. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og að það lúti að mikilsverðum hagsmunum sínum. Þá sé fyrirséð að dómurinn geti haft fordæmisgildi. Leyfisbeiðandi telur niðurstöðu Landsréttar ranga og vísar einkum til þess að sá annmarki sé á dóminum að þar hafi sönnunarbyrði skattyfirvalda við endurákvörðun opinberra gjalda gagnaðila ranglega verið lögð að jöfnu við sönnunarbyrði ákæruvalds í sakamáli. Leyfisbeiðandi áréttar í því sambandi að sýknudómurinn í sakamálinu á hendur gagnaðila hafi verið reistur á grundvallarreglu sakamálaréttarfars sem feli í sér ríka sönnunarbyrði ákæruvalds og eigi sér ekki samsvörun á sviði skattaréttar, sbr. meðal annars 108. gr. a laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Niðurstaða um málsatvik byggð á sönnunarkröfum sakamálaréttarfars geti ekki sjálfkrafa haft gildi í málinu. Þá telur leyfisbeiðandi með hliðsjón af forsögu málsins og upplýsingum í ársreikningi að sönnunarbyrði ætti með réttu að hvíla á gagnaðila um hvort fasteigninni hafi verið úthlutað án endurgjalds.

7. Að virtum gögnum málsins er litið svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi meðal annars um sönnunargildi dóma í sakamálum. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.