Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-39
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Vátrygging
- Skaðabætur
- Virðisaukaskattur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 25. mars 2022 leitar Summus ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 25. febrúar 2022 í máli nr. 66/2021: Summus ehf. gegn Verði tryggingum hf. á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila á hendur leyfisbeiðanda sem nemur virðisaukaskatti af kostnaði vegna viðgerðar á bifreið í eigu leyfisbeiðanda sem varð fyrir tjóni þegar bifreið, sem vátryggð var hjá gagnaðila, var ekið á hana.
4. Með dómi Landsréttar var fallist á kröfu gagnaðila sem nam virðisaukaskatti af viðgerðarkostnaði. Reikningur fyrir viðgerðinni hafði verið gefin út á leyfisbeiðanda sem gagnaðili greiddi og krafði leyfisbeiðanda í kjölfarið um fjárhæð sem jafngilti virðisaukaskattinum þar sem leyfisbeiðandi gæti talið skattinn til innskatts í rekstri sínum. Í dómi Landsréttar var vísað til þess að ákvörðun bóta til leyfisbeiðanda úr ábyrgðartryggingu hins vátryggða ökutækis færi eftir reglum skaðabótaréttar. Skýra yrði meginreglu 1. mgr. 35. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga um fullar bætur svo að gagnálykta ætti frá því á þann veg að vátryggður og þar með tjónþoli í ábyrgðartryggingum ætti ekki að auðgast af því að fá greiddar vátryggingarbætur og sama regla ætti við í skaðabótarétti. Talið var að líta yrði svo á að fjártjón leyfisbeiðanda hefði að fullu verið bætt með greiðslu gagnaðila á kostnaði af viðgerð án tillits til virðisaukaskatts og að hið sama ætti við þegar staðið hefði verið að uppgjöri bóta með þessum hætti.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi enda hafi það þýðingu fyrir mikinn fjölda aðila í virðisaukaskattskyldri starfsemi sem og fyrir vátryggingafélög. Jafnframt varði málið mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda enda ekki um að ræða eina virðisaukaskattinn sem vátryggingafélög hafa krafið áfrýjanda um greiðslu á í kjölfar viðgerða á bifreiðum hans. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að málsmeðferð hafi verið stórlega ábótavant þar sem dómur Landsréttar sé byggður á tveimur málsástæðum sem stefndi hafi aldrei teflt fram í héraði og uppfylli því ekki kröfur 2. mgr. 111. gr., sbr. 5. mgr. 101. gr., og f-liðar 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991. Loks sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur að efni til, einkum þar sem hann fari í bága við dóm Hæstaréttar í máli nr. 34/2005 og jafnframt þar sem leyfisbeiðanda hafi í reynd verið óheimilt að innskatta virðisaukaskattinn.
6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess geti haft verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.