Hæstiréttur íslands

Nr. 2020-92

Kristbjörg Ólafsdóttir og Finnur Gísli Garðarsson (Sigmundur Hannesson lögmaður)
gegn
Landsbankanum hf. (Hannes J. Hafstein lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fjármálafyrirtæki
  • Lánssamningur
  • Tryggingarbréf
  • Vanlýsing
  • Fyrning
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Með beiðni 26. mars 2020 leita Kristbjörg Ólafsdóttir og Finnur Gísli Garðarsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 28. febrúar sama ár í málinu nr. 323/2019: Kristbjörg Ólafsdóttir og Finnur Gísli Garðarsson gegn Landsbankanum hf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Landsbankinn hf. leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um að leyfisbeiðendum verði gert að þola fjárnám vegna skuldar Mara ehf. við gagnaðila samkvæmt lánssamningi um fjölmyntalán að fjárhæð 18.112.138 krónur, inn í veðrétt samkvæmt nánar tilgreindu tryggingarbréfi áhvílandi á fasteign þeirra að Nesbala 5, Seltjarnarnesi. Leyfisbeiðendur byggja í fyrsta lagi á því að krafa gagnaðila á hendur félaginu hafi fallið niður fyrir vanlýsingu þar sem henni hafi ekki verið lýst í þrotabú þess. Við það hafi veðréttur gagnaðila í fasteign þeirra jafnframt fallið niður. Í öðru lagi hafi krafan fallið niður sökum fyrningar eða tómlætis. Í þriðja lagi beri að víkja kröfunni til hliðar á grundvelli 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

Fyrir liggur að gagnaðili höfðaði fyrst mál á hendur leyfisbeiðendum 30. ágúst 2017 vegna umrædds tryggingabréfs. Mun gagnaðili hafa ákveðið að fella málið niður, sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur 1. febrúar 2018, í kjölfar dóma Hæstaréttar 12. október og 9. nóvember 2017 í málum nr. 649/2016 og 774/2016 um frávísun frá héraðsdómi þar sem ekki hefði með skýrum hætti verið tilgreint fyrir hvaða fjárkröfu bankinn krefðist að sér yrði heimilað að gera fjárnám. Í framhaldinu höfðaði gagnaðili mál þetta 22. júní 2018.

Héraðsdómur féllst á kröfu gagnaðila og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu með áðurnefndum dómi. Vísaði Landsréttur meðal annars til þess að þótt umrædd krafa hefði ekki komist að við skipti á þrotabúi félagsins vegna vanlýsingar hefði hún ekki fallið niður. Þá hefði réttur gagnaðila til að leita fullnustu í fasteign leyfisbeiðenda á grundvelli tryggingabréfsins hvorki fallið niður vegna vanlýsingar né vegna þess að ekki reyndi frekar á ábyrgð félagsins á skuldinni eftir lok skipta á þrotabúi félagsins. Fyrir lægi að gagnaðili hefði dregið frá skuldinni fjárhæð sem svaraði ríflega til þess hluta kröfunnar sem ætla yrði að hefði greiðst við skipti á þrotabúi félagsins ef henni hefði verið lýst. Þá hefði málið verið höfðað innan þess 6 mánaða frests sem veittur væri samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda til að höfða mál að nýju eftir að fyrra mál sem rofið hefði fyrningu hefði verið fellt niður.

Leyfisbeiðendur byggja á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um hvort málshöfðun sem ekki snýr að innheimtu kröfu heldur fullnustu tryggingarréttinda geti rofið eða framlengt fyrningu þeirrar kröfu. Vísa leyfisbeiðendur til þess að upphafleg málshöfðun gagnaðila hafi ekki getað slitið fyrningu þeirrar fjárkröfu sem að baki býr. Skipti því engu máli þótt málið hafi verið höfðað að nýju innan 6 mánaða frests samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 14/1905 enda hafi krafan þá verið fyrnd. Þá byggja leyfisbeiðendur á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Loks varði málið sérstaklega mikilvæga fjárhagslega hagsmuni leyfisbeiðenda.

Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi umfram dómsúrlausnir sem þegar hafa gengið né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Er beiðninni því hafnað.