Hæstiréttur íslands
Nr. 2018-214
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Fasteignakaup
- Galli
- Lóðarleigusamningur
- Þinglýsing
- Riftun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 3. nóvember 2018 leitar Magnús Þór Indriðason eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 12. október sama ár í málinu nr. 105/2018: Magnús Þór Indriðason gegn Gerði Garðarsdóttur, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gerður Garðarsdóttir leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að samningi sem aðilarnir gerðu í nóvember 2015 um kaup Gerðar á einbýlishúsi af leyfisbeiðanda. Mun það hafa staðið á landspildu í eigu einkaaðila, en þinglýstur lóðarleigusamningur um hana var tímabundinn til ársins 2025 og uppsegjanlegur með eins árs fyrirvara. Ekki var mælt fyrir um skyldu leigusala til að leysa til sín mannvirki á lóðinni við lok umsamins leigutíma en honum var á hinn bóginn veittur forkaups- og leiguréttur að mannvirkjum á landinu. Taldi Gerður fasteignina haldna galla af þessum sökum í skilningi laga nr. 40/2002 um fasteignakaup og lýsti yfir riftun kaupanna. Héraðsdómur Reykjaness tók til greina kröfur Gerðar um að viðurkenndur yrði réttur hennar til að rifta kaupsamningnum og skyldu leyfisbeiðanda til að endurgreiða henni þá fjárhæð sem hún hafði greitt af kaupverðinu. Sú niðurstaða var staðfest með dómi Landsréttar.
Leyfisbeiðandi byggir einkum á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Í þeim efnum vísar leyfisbeiðandi meðal annars til þess að fái dómur Landsréttar að standa óbreyttur sé í raun búið að slá því föstu að þinglýsing skjala og staðfesting kaupanda á því að hann hafi kynnt sér efni þeirra hafi enga þýðingu þegar komi að því að draga mörk milli upplýsingaskyldu seljanda og skoðunarskyldu kaupanda. Þá sé að sama skapi mikilvægt að Hæstiréttur skýri hvað felist í þeirri skyldu kaupanda samkvæmt 48. gr. laga nr. 40/2002 að tilkynna gagnaðila sínum um það innan sanngjarns frests hafi hann í hyggju að bera fyrir sig vanefnd.
Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að fallast á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið, sbr. 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991, né að það varði mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi ákvæðisins. Þá verður hvorki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant né að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi til eða efni. Er beiðninni því hafnað.