Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-50
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Fasteign
- Leigusamningur
- Vanefnd
- Skaðabætur
- Matsgerð
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
2. Með beiðni 3. apríl 2024 leitar Útlendingastofnun leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 8. mars sama ár í máli nr. 178/2023: Útlendingastofnun gegn Maríubás ehf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Ágreiningur málsins lýtur að kröfu gagnaðila á hendur leyfisbeiðanda um greiðslu 97.945.847 króna vegna vanefnda á leigusamningi aðila um 38 einstaklingsíbúðir sem gagnaðili tók á leigu í þágu umsækjenda um alþjóðlega vernd hér á landi og tapaðra leigutekna af sömu íbúðum.
4. Með dómi Landsréttar var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að um eitt samfellt leigusamband hefði verið að ræða og leyfisbeiðanda borið að skila gagnaðila húsnæðinu ásamt tilheyrandi fylgifé í sama ástandi og hann tók við því 1. júlí 2017. Á það var fallist með héraðsdómi að rýrnun og spjöll hefðu orðið á hinu leigða húsnæði á leigutíma umfram það sem teldist eðlileg afleiðing venjulegrar eða umsaminnar notkunar húsnæðisins. Matsgerð dómkvadds matsmanns var lögð til grundvallar um heildarkostnað við nauðsynlegar úrbætur, umfram úrbætur á því sem teldist eðlilegt slit og hrörnun á hinu leigða húsnæði. Einnig var fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að gagnaðili hafi orðið fyrir tjóni sem næmi töpuðum leigutekjum á tímabilinu frá 1. maí 2020 til 11. mars 2021 þegar endurbætur á húsnæðinu stóðu yfir. Við ákvörðun á fjárhæð þess tjóns var niðurstaða yfirmatsgerðar lögð til grundvallar.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að til grundvallar niðurstöðu Landsréttar liggi forsendur sem lúti að atriðum sem hafi verulegt almennt gildi ef dómurinn verður látinn standa óraskaður. Að því er varðar bætur vegna rýrnunar og spjalla sé dómurinn reistur á þeirri forsendu að leyfisbeiðanda hafi borið að skila gagnaðila húsnæðinu í því ástandi sem það var 1. júlí 2017 þótt nýr leigusamningur aðila hafi verið gerður 17. ágúst ári síðar og án tillits til ástandsskoðana og yfirlýsinga um fullnægjandi ástand þess af hálfu gagnaðila 9. júlí og 17. ágúst. Að því er varðar bætur vegna tapaðra leigutekna sé dómur Landsréttar reistur á þeirri forsendu að gagnaðili hafi orðið af fullum tekjum í 11 mánuði og leyfisbeiðandi beri ábyrgð á því tjóni í heild sinni. Þessi forsenda dómsins sé reist á því að gagnaðila hafi verið rétt að bíða með endurbætur á hinu leigða frá mars til september 2020 og hefja svo endurbætur sem stóðu samfellt í sex mánuði á öllum 38 íbúðunum án þess að hefja útleigu einnar einustu þeirrar á framkvæmdatíma. Leyfisbeiðandi telur framangreindar forsendur bersýnilega rangar og því brýnt að Hæstiréttur fjalli um málið.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.