Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-180

A (Óðinn Elísson lögmaður)
gegn
Verði tryggingum hf. (Magnús Hrafn Magnússon lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Ökutæki
  • Líkamstjón
  • Umferðarlög
  • Stórkostlegt gáleysi
  • Eigin sök
  • Vátryggingarsamningur
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir.

2. Með beiðni 1. júlí 2021 leitar A leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 4. júní sama ár í málinu nr. 228/2020: A gegn Verði tryggingum hf. og gagnsök á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Leyfisbeiðandi varð fyrir líkamstjóni er hann ók bifhjóli sínu aftan á bifreið í ágúst 2013. Í máli þessu krefst hann fullra bóta úr slysatryggingu ökumanns hjá gagnaðila. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort gagnaðila hafi verið heimilt að skerða bótarétt leyfisbeiðanda á þeim grundvelli að hann hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi í umrætt sinn, sbr. 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að leyfisbeiðanda yrði gert að bera þriðjung tjóns síns sjálfur sökum stórkostlegs gáleysis en gagnaðili dæmdur til að greiða honum tvo þriðju hluta þess. Í dóminum var meðal annars vísað til þess að ekki yrði annað ráðið af gögnum málsins en að leyfisbeiðandi hefði ekið bifhjólinu langt yfir löglegum hámarkshraða og valdið slysinu með því að horfa ekki fram fyrir sig skömmu áður en áreksturinn varð. Það lægi ótvírætt fyrir að hann hefði ekki gætt að varúðarreglu 1. mgr. 36. gr. þágildandi umferðarlaga nr. 50/1987.

4. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi á sviði vátryggingaréttar einkum að því er varðar gildissvið og túlkun á ákvæðum 90. og 94. gr. laga nr. 30/2004. Hæstiréttur hafi einu sinni áður fjallað um síðastnefnt ákvæði, sbr. dóm Hæstaréttar 31. mars 2015 í máli nr. 639/2014, en sá dómur veiti takmarkaðar leiðbeiningar um gildissvið ákvæðisins, túlkun og beitingu þess. Þá sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur að efni til þar sem lagatúlkun, sönnunar- og gáleysismat dómsins hafi verið rangt. Leyfisbeiðandi vísar til þess að hann hafi lagt fram nýtt skjal fyrir Landsrétti sem varpi ljósi á tómlæti gagnaðila við gagnaöflun og tilkynningarskyldu samkvæmt 94. gr. laganna en um það hafi ekki verið fjallað í dómi Landsréttar. Loks byggir hann á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína.

5. Að virtum gögnum málsins verður litið svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi um þau atriði sem leyfisbeiðandi byggir á, einkum um túlkun ákvæða 94. gr. laga nr. 30/2004. Beiðnin er því samþykkt.