Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-94

Elfa Ýr Gylfadóttir (Kristín Edwald lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Björn Jóhannesson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Opinberir starfsmenn
  • Stjórnsýsla
  • Stjórnvaldsákvörðun
  • Laun
  • Rökstuðningur
  • Upplýsingaréttur
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 7. maí 2025 leitar Elfa Ýr Gylfadóttir leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 10. apríl sama ár í máli nr. 98/2024: Íslenska ríkið gegn Elfu Ýri Gylfadóttur. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni en telur skilyrði fyrir veitingu áfrýjunarleyfis ekki fyrir hendi.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um viðurkenningu á rétti til rökstuðnings fyrir ákvörðun fjármála- og efnahagsráðherra um laun hennar, ásamt aðgangi að skriflegum gögnum sem vörðuðu ákvörðunina svo og um greiðslu miskabóta. Leyfisbeiðandi gegnir starfi framkvæmdastjóra fjölmiðlanefndar og var ákvörðun ráðherra um laun hennar birt 4. september 2019. Deila aðilar um hvort fyrrgreind ákvörðun teljist stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

4. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að fyrrgreind ákvörðun ráðherra teldist stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga og féllst á kröfu leyfisbeiðanda um rökstuðning fyrir ákvörðuninni og rétt til aðgangs að skriflegum gögnum sem vörðuðu hana en hafnaði miskabótakröfu. Með dómi Landsréttar var gagnaðili hins vegar sýknaður af öllum kröfum leyfisbeiðanda. Landsréttur vísaði til þess að ákvarðanir ráðherra um laun forstöðumanna væru reistar á grunnmati sem lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins gerðu ráð fyrir að byggt væri á hlutlægum viðmiðum og óháð því hvaða kostum sá kynni að vera búinn sem gegndi starfi viðkomandi forstöðumanns. Rétturinn tók fram að ákvæði 39. gr. a laga nr. 70/1996 myndaði grunn ákvörðunar launa forstöðumanna ríkisstofnana og fyrirkomulag laganna um ákvarðanir ráðherra um laun þeirra hefði svipmót heimilda ráðherra að setja almenn fyrirmæli á grundvelli lagaheimildar fremur en stjórnvaldsákvarðana. Taldi Landsréttur að tilgreindum ákvæðum laga nr. 70/1996 væri ætlað að tryggja forstöðumönnum ríkisstofnana stöðu sem ætlað væri að koma í stað samningsréttar um launakjör þeirra og ákvarðanirnar væru teknar í samræmi við óskráðar meginreglur um vandaða stjórnsýsluhætti. Reglur laganna yrðu hins vegar ekki skildar þannig að ákvarðanir um laun forstöðumannanna væru stjórnvaldsákvarðanir sem veittu hverjum og einum forstöðumanni rétt til að teljast aðili máls á grundvelli stjórnsýslulaga. Komst Landsréttur því að þeirri niðurstöðu að ákvörðun ráðherra um laun leyfisbeiðanda yrði ekki talin stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða málsins sé bersýnilega röng og í ósamræmi við grundvallarreglur stjórnsýsluréttar, áratugalanga réttarframkvæmd og lögskýringargögn. Lagt hafi verið til grundvallar í réttarframkvæmd að þegar ákvörðun um laun opinbers starfsmanns byggist ekki á samningi heldur einhliða ákvörðun stjórnvalds teljist hún stjórnvaldsákvörðun. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Dómurinn sé þannig fordæmisgefandi fyrir alla forstöðumenn stofnana ríkisins.

6. Að virtum gögnum málsins verður að telja að dómur í því kunni að hafa verulega almenna þýðingu um hvenær ákvörðun ráðherra telst stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.