Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-51

A (Hulda Rós Rúriksdóttir lögmaður)
gegn
B (Valborg Þ. Snævarr lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Opinber skipti
  • Fjárslit milli hjóna
  • Fasteign
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 20. mars 2025 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., til að kæra úrskurð Landsréttar 7. sama mánaðar í máli nr. 5/2025: A gegn B. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að ágreiningi aðila við opinber skipti til fjárslita vegna hjónaskilnaðar.

4. Með úrskurði Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að hafna kröfum leyfisbeiðanda. Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu héraðsdóms að leyfisbeiðandi hefði ekki rennt viðhlítandi stoðum undir það að skráðum eignarhluta hennar í fasteign í […] yrði haldið utan skipta á grundvelli 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Landsréttur féllst jafnframt á þá niðurstöðu héraðsdóms að hafna varakröfu leyfisbeiðanda um að tekið yrði tillit til skráðrar skuldar á fasteigninni. Þá var staðfest að hafna bæri kröfu leyfisbeiðanda um að tekið skyldi tillit til málskostnaðar hennar vegna dómsmáls sem gagnaðili höfðaði á hendur henni fyrir dómstóli í […].

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að kæruefnið hafi fordæmisgildi. Í gögnum málsins liggi fyrir staðfesting á því að í eignarréttindum hennar í fyrrgreindri íbúð felist sérstakt tilbrigði sameignarréttinda sem ekki þekkist í íslenskum rétti. Byggir leyfisbeiðandi á því að málið hafi einkum fordæmisgildi við mat á því hvenær réttlætanlegt sé að víkja frá reglum hjúskaparlaga um helmingaskipti hjóna og hvenær eignir geti fallið undir 3. tölulið 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga. Þá hafi niðurstaða um ágreininginn grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrlausn um kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni, geti haft fordæmisgildi eða grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar sömu málsgreinar á grundvelli þess að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.