Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-166
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Samningur
- Uppgjör
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 10. maí 2019 leitar VHE ehf. eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 12. apríl sama ár í málinu nr. 591/2018: VHE ehf. gegn Hýsi – Merkúr hf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hýsi – Merkúr hf. leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um að leyfisbeiðanda verði gert að greiða sér 82.227.825 krónur auk dráttarvaxta vegna vangoldinna reikninga fyrir byggingarefni. Tók gagnaðili að sér að afhenda leyfisbeiðanda stál í byggingu sem sá síðarnefndi var að reisa samkvæmt verksamningi við Eimskip Ísland ehf. Ágreiningur aðila snýr einkum að því hvort þeir hafi samið um að stál í burðarvirki byggingarinnar færi ekki yfir 350 tonn nema um samþykkt aukaverk væri að ræða eða hvort eingöngu hafi verið samið um einingarverð. Einnig deila þeir um ábyrgð á verktöfum. Taldi gagnaðili að í tilboði sínu hafi eingöngu verið miðað við einingarverð á tonni af stáli en hvergi hafi verið getið um ákveðið magn sem yrði afhent eða heildarverð fyrir stálvirkið. Héraðsdómur tók kröfu gagnaðila til greina og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu með áðurnefndum dómi.
Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé rangur að efni til þar sem sönnunargögn hafi ekki verið réttilega metin og hafi þar meðal annars verið lagðar til grundvallar ósannaðar staðhæfingar gagnaðila. Þá telur leyfisbeiðandi að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína.
Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Er beiðninni því hafnað.