Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-142
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Dánarbú
- Opinber skipti
- Ábúð
- Forkaupsréttur
- Kröfugerð
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Sigurður Tómas Magnússon og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 3. október 2025 leitar A ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., til að kæra úrskurð Landsréttar 19. september sama ár í máli nr. 444/2025: A ehf. gegn dánarbúi B, C, D, E, F, G, H, I og J. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.
3. Málið varðar kröfu leyfisbeiðanda um að gagnaðila dánarbúi B verði gert að afsala jörðunum [Jörð 1] og [Jörð 2] til leyfisbeiðanda gegn kaupsamningsgreiðslu samkvæmt samþykktu kauptilboði og viðurkenndur verði réttur til bóta úr hendi varnaraðila.
4. Með úrskurði héraðsdóms var öllum kröfum leyfisbeiðanda hafnað. Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu héraðsdóms. Vísað var til þess að gagnaðili C ætti sem ábúandi á jörðinni forkaupsrétt að henni á grundvelli 1. mgr. 27. gr. jarðalaga nr. 81/2004. Þá tók rétturinn fram að eins og aðalkrafa leyfisbeiðanda væri sett fram væri ekki mögulegt að taka afstöðu til þess hvort dánarbúinu yrði gert að afsala jörðinni [Jörð 2] til leyfisbeiðanda.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi fordæmisgildi og grundvallarþýðingu fyrir áframhaldandi meðferð málsins. Í málinu komi til skoðunar hvaða þýðingu það hafi að ábúð gagnaðila C hafi verið sagt upp með lögmætum hætti í desember 2019 miðað við fardaga vorið 2020. Í framhaldi af uppsögninni hafi hann skorið niður bústofn og í raun hætt búrekstri. Ekki hafi áður reynt á hvaða þýðingu slík uppsögn hafi fyrir forkaupsrétt ábúanda sem sé hættur búrekstri en hafi búið á jörðinni með leyfi skiptastjóra. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að í málinu reyni á túlkun hugtaksins landbúnaðarstarfsemi í 27. gr. jarðalaga og hvar mörkin liggi milli landbúnaðarstarfsemi og frístundabúskapar. Að lokum telur leyfisbeiðandi ranga þá niðurstöðu að ekki sé nauðsyn á að tryggja lögbundinn forkaupsrétt með þinglýsingu þar sem hann ráðist af settum lögum. Nauðsynlegt sé að líta til atvika málsins í heild og þess sem fram komi í söluyfirliti enda sé gagnaðili C einn af seljendum jarðarinnar.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrlausn um kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni eða að öðru leyti sé fullnægt skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar sömu málsgreinar á grundvelli þess að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.