Hæstiréttur íslands
Nr. 2020-302
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Útburðargerð
- Aðför
- Hafnað
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
Með beiðni 22. desember 2020 leitar þrotabú Kjartans Hafsteins Rafnssonar leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 9. sama mánaðar í málinu nr. 593/2020: Þrotabú Kjartans Hafsteins Rafnssonar gegn Vaida Karinauskaite, á grundvelli 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að gagnaðili verði með beinni aðfarargerð borinn út úr fasteigninni að Hlíðarbyggð 15 í Garðabæ. Með úrskurði Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að hafna kröfu leyfisbeiðanda. Var talið að í kröfu leyfisbeiðanda fælist að gagnaðili yrði borinn út úr áðurnefndri fasteign áður en ágreiningur um eignarhald fasteignarinnar væri útkljáður og það þrátt fyrir að gagnaðili væri enn skuldari lána sem hvíldu á fasteigninni. Þá hafi útgáfa leyfisbeiðanda á afsali farið í bága við þann kaupsamning sem afsalið byggðist á.
Leyfisbeiðandi telur að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni og hafi fordæmisgildi um það hvort afsalshafi eignar geti farið fram á útburð þess sem þar býr ,,augljóslega í óþökk afsalshafans“. Leyfisbeiðandi mótmælir niðurstöðu héraðsdóms og Landsréttar um að hann hafi ekki fært sönnur á að réttur hans til að gagnaðili víki af fasteigninni sé svo skýr og ótvíræður að hann verði knúinn fram með beinni aðfarargerð enda liggi meðal annars fyrir afsal sem ekki sé deilt um að gagnaðili hafi skrifað undir og uppfylli öll þau skilyrði sem afsal þurfi að uppfylla samkvæmt lögum.
Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni né að það hafi fordæmisgildi svo einhverju nemi þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru engin efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu greinar í málinu. Beiðninni er því hafnað.