Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-134
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Verksamningur
- Þjónustukaup
- Samningssamband
- Upplýsingaskylda
- Galli
- Vanhæfi
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 30. nóvember 2023 leitar Húsaklæðning ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 3. nóvember sama ár í máli nr. 418/2022: Kambavað 1, húsfélag gegn Húsaklæðningu ehf. og gagnsök. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Ágreiningur aðila lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um greiðslu að fjárhæð 19.262.236 krónur ásamt nánar tilgreindum vöxtum. Aðilar undirrituðu verkbeiðni vegna viðgerða á fasteigninni Kambavaði 1. Leyfisbeiðandi byggir á því að gagnaðili hafi samþykkt umfangsmeiri vinnu og viðgerðir en gert hafði verið ráð fyrir með upphaflegri verkbeiðni og telur að endurgjald fyrir unna verkþætti samkvæmt henni nemi samtals 44.248.557 krónum.
4. Með dómi Landsréttar var bent á að leyfisbeiðandi bæri ríka upplýsingaskyldu gagnvart gagnaðila sem seljandi þjónustu í atvinnuskyni, sbr. 4. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup. Í kröfugerð leyfisbeiðanda fælist að endanlegur kostnaður vegna verka sem hann hefði tekið að sér að vinna fyrir gagnaðila hefði verið tæplega 78% hærri en samkvæmt upphaflegu samkomulagi. Leyfisbeiðandi yrði að tryggja sér viðhlítandi sönnun fyrir því að gagnaðili hefði samþykkt að greiða fyrir viðbótarverk og aukinn kostnað vegna verka sem áður hefði verið samið um, sbr. 29. gr. laga nr. 42/2000. Jafnframt var í niðurstöðu Landsréttar tekið mið af því að fyrir hefði legið matsgerð dómkvadds matsmanns með þeirri niðurstöðu að umtalsverðir annmarkar hefðu verið á vinnu leyfisbeiðanda og hún að stórum hluta engum tilgangi þjónað.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi til og málsmeðferð fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant. Leyfisbeiðandi hafi fengið tilkynningu þess efnis að til stæði að kveðja Hjalta Sigmundsson byggingatæknifræðing og húsasmíðameistara til setu í dómi sem sérfróðan meðdómsmann. Rétturinn hafi upplýst að árið 2009 hafi Hjalti unnið matsgerð um húsið en í tilkynningunni komið fram að sú matsgerð hefði takmarkast við ástand þriggja íbúða í húsinu og að þak hússins hefði ekki komið til skoðunar. Hafi leyfisbeiðandinn því ekki gert athugasemdir við hæfi meðdómsmannsins. Leyfisbeiðandi hafi á síðari stigum aflað afrits af matsgerðinni og þá hafi komið í ljós umfjöllun um ástand á þaki hússins en verkliðir sem tengist þakinu hafi verið hluti af verkinu sem leyfisbeiðandi innti af hendi og deilt sé um í málinu. Hann telur með vísan til hinna röngu upplýsinga sem fram hafi komið í tilkynningu Landsréttar að sérfróði meðdómsmaðurinn hafi verið vanhæfur á grundvelli c- og g-liða 5. gr. laga nr. 91/1991. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur enda líti dómurinn fram hjá gögnum sem beri með sér að aðilar hafi samið um aukaverk og niðurstaða málsins varði verulega hagsmuni hans enda hafi hann hagað samningagerð sinni með sambærilegum hætti í fjölmörgum málum.
6. Að virtum gögnum málsins verður talið að ástæða sé til að ætla að málsmeðferð fyrir Landsrétti kunni að hafa verið stórlega ábótavant, sbr. 3. málslið 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.