Hæstiréttur íslands

Nr. 2020-122

Kristinn S. Jórmundsson og Kristín Margrét Matthíasdóttir (Baldvin Hafsteinsson lögmaður)
gegn
Friðriki Inga Friðrikssyni (Ólafur Hvanndal Ólafsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fasteignakaup
  • Söluyfirlit
  • Galli
  • Byggingarreglugerð
  • Matsgerð
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson.

Með beiðni 22. apríl 2020 leita Kristinn S. Jórmundsson og Kristín Margrét Matthíasdóttir eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 27. mars 2020 í málinu nr. 393/2019: Friðrik Ingi Friðriksson gegn Kristni S. Jórmundssyni og Kristínu Margréti Matthíasdóttur og gagnsök, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Friðrik Ingi Friðriksson leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðenda um skaðabætur, en til vara afsláttar, vegna galla sem þau töldu vera á fasteign sem þau keyptu af gagnaðila og byggja þau kröfur sínar á 26. og 27. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup. Kröfur leyfisbeiðenda snúa meðal annars að því að 146 fermetra lóðarskiki sem frá hafi verið greint í söluyfirliti að fylgdi eigninni hafi ekki reynst vera í eigu gagnaðila og að ýmsum ágöllum á fasteigninni sem þau telja að hafi ekki samrýmst því ástandi hennar sem þau hafi mátt gera ráð fyrir. Telja þau að fasteignin hafi verið haldin göllum þar sem hún hafi ekki staðist kröfur um gæði, búnað og annað sem leiði af lögum nr. 40/2002.

Í héraðsdómi var gagnaðila gert að greiða leyfisbeiðendum skaðabætur vegna umræddrar lóðarspildu og annarra nánar tiltekinna galla á grundvelli matsgerðar sem aflað var undir rekstri málsins. Landsréttur komst að gagnstæðri niðurstöðu og sýknaði gagnaðila af kröfum leyfisbeiðenda. Rétturinn tók fram að kaupsamningur bæri ekki með sér að gagnaðili hefði selt leyfisbeiðendum stærri lóð en útprentun úr fasteignaskrá bar með sér. Með vísan til þess og að söluyfirlit með umræddum upplýsingum hefði ekki legið fyrir þegar kaup tókust um eignina hefðu leyfisbeiðendur ekki haft réttmæta ástæðu til að ganga út frá því að viðbótarlóðin væri hluti af hinu keypta. Þá taldi Landsréttur að fyrrnefnd matsgerð hefði að verulegu leyti verið reist á röngum eða ótraustum forsendum og yrði hún því ekki lögð til grundvallar við úrlausn málsins. Um einstaka þætti bótakröfu leyfisbeiðenda vegna ætlaðra galla á fasteigninni hefði alfarið verið vísað til matsgerðarinnar og enga sjálfstæða lýsingu verið að finna í stefnu á einstökum göllum og ætluðu tjóni vegna þeirra. Var talið að eins og málatilbúnaði var háttað  hefði ekki verið sýnt fram á að fasteignin hefði verið haldin göllum sem gagnaðili bæri skaðabótaábyrgð á.

Leyfisbeiðendur telja að skilyrði 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt þar sem dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til og að niðurstaða málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni þeirra þar sem um verulega fjárhæð sé að ræða. Auk þess varði ágreiningur málsins heimili leyfisbeiðenda. Jafnframt telja þau að niðurstaða málsins hafi verulegt almennt gildi þar sem áður fastmótaðri reglu um gildi og ábyrgð seljanda á efni söluyfirlita í fasteignakaupum hafi verið raskað með niðurstöðu réttarins. Þá hefði Landsréttur einnig með óréttmætum hætti litið fram hjá þýðingu matsgerða í dómsmálum.

Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi umfram það sem leitt verður af öðrum dómsúrlausnum né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Er beiðninni því hafnað.