Hæstiréttur íslands

Nr. 2020-96

Helga Laufey Guðmundsdóttir (Þórður Heimir Sveinsson lögmaður)
gegn
Íslandsbanka hf. (Jón Auðunn Jónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skaðabætur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Með beiðni 24. mars 2020 leitar Helga Laufey Guðmundsdóttir leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 28. febrúar sama ár í málinu nr. 328/2019: Helga Laufey Guðmundsdóttir gegn Íslandsbanka hf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Íslandsbanki hf. leggst gegn beiðninni.

Leyfisbeiðandi höfðaði mál þetta til heimtu skaðabóta að fjárhæð 7.329.254 krónur vegna tjóns sem hún kveðst hafa orðið fyrir sökum ólögmætrar beiðni gagnaðila um nauðungarsölu á tilgreindri fasteign hennar að undangengnu fjárnámi sem jafnframt hafi verið ólögmætt. Héraðsdómur sýknaði gagnaðila af kröfu leyfisbeiðanda og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu með áðurnefndum dómi. Vísaði Landsréttur til þess að með dómi Hæstaréttar 3. mars 2016 í máli nr. 418/2015 hefði gagnaðila verið heimilað að gera fjárnám í umræddri fasteign á grundvelli tryggingabréfs að fjárhæð 6.000.000 króna með allsherjarveði tryggðu með 1. veðrétti í eigninni, til tryggingar skuldar tilgreinds félags við gagnaðila. Hefði dómurinn verið fullnægjandi heimild fyrir fjárnámi í fasteign leyfisbeiðanda, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, og fjárnámið síðan veitt fullnægjandi heimild til nauðungarsölu á fasteigninni, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Hefði leyfisbeiðandi hins vegar greitt kröfu gagnaðila áður en til nauðungarsölu kom. Taldi rétturinn að ónákvæmni í beiðnum gagnaðila um nefndar fullnustugerðir eða annað það sem leyfisbeiðandi byggði á ekki geta leitt til þess að sýnt teldist að hún hefði vegna saknæmrar og ólögmætrar háttsemi gagnaðila greitt kröfu sem hún hefði ella ekki þurft að greiða.

Leyfisbeiðandi byggir einkum á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um heimild til nauðungarsölu á grundvelli tryggingabréfs þegar gert hefur verið fjárnám „inn í réttindi“ og  skilyrði aðfarar og nauðungarsölu hafi ekki verið fyrir hendi. Þá sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur. Loks varði málið sérstaklega mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sína.

Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Er beiðninni því hafnað.