Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-181

Vulkan Reiser AS (Gunnar Ingi Jóhannsson lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Óskar Thorarensen lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Virðisaukaskattur
  • Skattskylda
  • Stjórnarskrá
  • Afturvirkni laga
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 23. desember 2024 leita Vulkan Reiser AS leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 28. nóvember sama ár í máli nr. 594/2023: Íslenska ríkið gegn Vulkan Reiser AS. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni.

3. Í málinu er deilt um gildi ákvörðunar ríkisskattstjóra þar sem kröfu leyfisbeiðanda, sem er norsk ferðaskrifstofa, um endurgreiðslu virðisaukaskatts var hafnað.

4. Með dómi héraðsdóms var ákvörðun ríkisskattstjóra felld úr gildi. Landsréttur taldi hins vegar að leyfisbeiðandi ætti ekki rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts á grundvelli þágildandi 3. mgr. 43. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 288/1995. Vísað var til þess að sú þjónusta leyfisbeiðanda sem beiðni hans um endurgreiðslu tók til hefði varðað kaup og endursölu á ýmissi ferðatengdri þjónustu sem hann hefði keypt af þjónustuaðilum á Íslandi, skeytt saman í ferðapakka og selt ferðamönnum erlendis til nota hér á landi. Leyfisbeiðandi hefði ekki verið undanþeginn skattskyldu samkvæmt 4. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. sömu laga, auk þess sem fyrir lægi að umrædd þjónusta hefði ekki verið undanskilin virðisaukaskatti samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laganna. Var fallist á þá málsástæðu gagnaðila að leyfisbeiðanda hefði borið skylda til að gæta að ákvæði 5. gr. laganna og óska eftir skráningu umræddrar starfsemi á virðisaukaskattsskrá, eftir atvikum fyrir atbeina umboðsmanns á grundvelli 6. töluliðar 1. mgr. 3. gr. laganna. Þá var ekki fallist á með leyfisbeiðanda að við töku ákvörðunar ríkisskattstjóra hefði verið brotið gegn reglum stjórnsýsluréttar.

5. Leyfisbeiðandi telur að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi enda snerti það allar ferðaskrifstofur sem selji erlendum ferðamönnum pakkaferðir. Dómurinn feli í sér að nú beri þeim öllum að skrá sig á virðisaukaskattskrá hér á landi ætli þær að standa jafnfætis við innlenda aðila. Þá telur leyfisbeiðandi dóm Landsréttar bersýnilega rangan hvað varðar þá niðurstöðu að honum hafi verið skylt að skrá sig á virðisaukaskattsskrá hér á landi árin 2016 til 2018. Einnig sé niðurstaðan reist á lagaákvæðum sem tekið hafi gildi eftir atvik máls. Þá hafi Landsréttur rökstutt niðurstöðu sína með vísan til lagabreytingar sem varð með lögum nr. 143/2018 um breytingu á lögum nr. 50/1988 og tóku gildi 1. janúar 2019 en endurgreiðslubeiðnir í málinu lúti að árunum 2016 til 2018. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómsúrlausn skuli í öllum tilvikum grundvallast á þeim lögum og reglum sem í gildi voru þegar atvik máls áttu sér stað. Bann við afturvirkni laga komi í veg fyrir að löggjafinn geti undir því yfirskyni að verið sé að skýra lagaákvæði eða gildandi rétt breytt reglum um skráningarskyldu skattaðila með afturvirkum hætti. Slíkt gangi í berhögg við 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar. Allur vafi um skattskyldu skuli túlkaður skattaðila í hag.

6. Að virtum gögnum málsins verður að telja að dómur í því kunni að hafa almenna þýðingu. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.