Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-162
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Verksamningur
- Aukaverk
- Skuldajöfnuður
- Tafabætur
- Tómlæti
- Málsforræði
- Málsástæða
- Vanhæfi
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 9. desember 2022 leitar Stilling hf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 18. nóvember sama ár í máli nr. 308/2021: Stilling hf. gegn þrotabúi Fashion Group ehf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Ágreiningur aðila lýtur að kröfu gagnaðila um greiðslu eftirstöðva samningsfjárhæðar úr hendi leyfisbeiðanda samkvæmt verksamningi milli aðila auk greiðslu sem gagnaðili telur sig eiga rétt á fyrir ýmis auka- og viðbótarverk í tengslum við verkið. Gerði gagnaðili aðallega kröfu um greiðslu 40.080.592 króna en til vara 14.982.314 króna, í báðum tilvikum með nánar tilgreindum vöxtum. Leyfisbeiðandi hafði uppi gagnkröfur til skuldajöfnunar vegna útlagðs kostnaðar sem hann taldi sig eiga rétt á vegna ólokinna verka sem gagnaðili hefði átt að vinna samkvæmt verksamningnum sem og bóta vegna tafa á verkinu.
4. Með héraðsdómi var leyfisbeiðanda gert að greiða gagnaðila 16.368.603 krónur ásamt nánar tilgreindum vöxtum. Með dómi Landsréttar var sú fjárhæð lækkuð og leyfisbeiðanda gert að greiða gagnaðila 13.961.451 krónu með nánar tilgreindum vöxtum. Í dómi Landsréttar var rakið bréf lögmanns leyfisbeiðanda til gagnaðila 21. mars 2019 þar sem vísað hefði verið til fyrri samskipta aðila um uppgjör og þar væri að finna útreikning leyfisbeiðanda á eftirstöðvum samningsfjárhæðarinnar. Samkvæmt því sem þar kæmi fram hefði leyfisbeiðandi talið að eftirstöðvar þeirrar fjárhæðar hefðu numið 13.592.565 krónum. Taldi rétturinn að eins og reikningsgerð gagnaðila hefði verið háttað yrði sú fjárhæð lögð til grundvallar í málinu, enda væri hún viðurkennd af hálfu leyfisbeiðanda. Þá var fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að gagnaðili ætti rétt á greiðslu að fjárhæð 1.598.696 krónur fyrir aukaverk sem laut að breytingum á stálgrind hússins. Hins vegar var fallist á að leyfisbeiðandi gæti nýtt kröfu um greiðslu útlagðs kostnaðar samkvæmt tilgreindum reikningum, samtals að fjárhæð 929.810 krónur, til skuldajöfnunar í málinu sem og áður dæmdan málskostnað að fjárhæð 300.000 krónur. Loks komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að formlegri kröfu um tafabætur hefði fyrst verið beint til gagnaðila með bréfi lögmanns leyfisbeiðanda 21. mars 2019 en þá hefðu verið nær átta mánuðir liðnir frá því að gagnaðili tilkynnti leyfisbeiðanda um verklok. Með því hefði leyfisbeiðandi sýnt af sér tómlæti með því að tilkynna ekki, þá þegar hann taldi tilefni til, að hann hygðist krefjast tafabóta samkvæmt verksamningnum og var kröfu þar að lútandi því hafnað.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um meðal annars túlkun á ætlaðri viðurkenningu leyfisbeiðanda á fjárhæð kröfu sem ekki sé byggt á af hálfu gagnaðila. Vísar hann því til stuðnings til þess að fjárhæð þeirrar kröfu er Landsréttur lagði til grundvallar niðurstöðu sinni hafi aldrei verið viðurkennd af hálfu leyfisbeiðanda við meðferð málsins og ekki verið byggt á henni af hálfu gagnaðila. Landsréttur hafi þannig farið út fyrir málsástæður gagnaðila. Jafnframt hefði Landsrétti borið að taka afstöðu til þess hvort dómkröfur gagnaðila uppfylltu áskilnað 80. gr. laga nr. 91/1991 um skýran og glöggan málatilbúnað. Þá reisir hann beiðnina á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, meðal annars niðurstaða réttarins um meint tómlæti hans. Þá telur hann að sérfróður meðdómandi í Landsrétti hafi verið vanhæfur á grundvelli b-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 þar sem hann hafi unnið að ofangreindu verki fyrir gagnaðila.
6. Að virtum gögnum málsins verður talið að dómur í því geti haft fordæmisgildi á þessu réttarsviði, þar með talið um réttaráhrif ætlaðrar viðurkenningar verkkaupa á greiðsluskyldu í aðdraganda málshöfðunar sem og um réttaráhrif tómlætis við ákvörðun tafabóta. Þá er ástæða til að fjallað verði um hvort sérfróður meðdómsmaður í Landsrétti hafi verið hæfur til að fara með málið. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.