Hæstiréttur íslands

Nr. 2018-208

M (Magnús M. Norðdahl lögmaður)
gegn
K (Sveinn Sveinsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Óvígð sambúð
  • Opinber skipti
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 26. október 2018 leitar M leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 11. sama mánaðar í málinu nr. 604/2018: M gegn K, á grundvelli 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. K leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfum leyfisbeiðanda um að viðurkennt verði við opinber skipti til fjárslita við lok óvígðrar sambúðar hans og gagnaðila að þau beri jafna og óskipta ábyrgð annars vegar á greiðslu skuldar við Íslandsbanka hf. á grundvelli tryggingarbréfs 15. júní 2005 upphaflega að fjárhæð 1.700.000 krónur sem hvílir á 3. veðrétti í nánar tiltekinni fasteign þeirra og hins vegar á greiðslu skuldar vegna leigu á íbúð í Danmörku á nánar tilgreindu tímabili. Héraðsdómur hafnaði þessum kröfum með úrskurði 4. júlí 2018 og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu með framangreindum úrskurði. Byggir leyfisbeiðandi á því að kæruefnið hafi fordæmisgildi auk þess sem það kunni að varða almannahagsmuni. Þá telur leyfisbeiðandi að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur.

Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að kæruefnið varði mikilvæga almannahagsmuni né að það hafi fordæmisgildi svo einhverju nemi þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild  3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Er beiðninni því hafnað.