Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-82
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Fjárnám
- Skattur
- Greiðsla
- Hjón
- Sjálfskuldarábyrgð
- Stjórnsýsla
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
2. Með beiðni 24. júní 2024 leitar Skatturinn leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 5. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, til að kæra úrskurð Landsréttar 12. sama mánaðar í máli nr. 210/2024: Skatturinn gegn A. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Málið varðar fjárnámsgerð sem fór fram í eignarhluta gagnaðila í […] í maí 2023. Krafa leyfisbeiðanda grundvallast á endurákvörðun opinberra gjalda fyrrverandi eiginmanns gagnaðila en þau voru í hjúskap hluta þess tímabils sem endurákvörðunin tekur til. Gagnaðili telur að ef farið hefði verið eftir fyrirmælum fyrrverandi eiginmanns hennar um ráðstöfun greiðslna eða reglum nr. 797/2016 um greiðsluforgang og skuldajöfnun skatta og gjalda hefði sá hluti kröfunnar sem hún hafi verið í ábyrgð fyrir, samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, verið greiddur að fullu.
4. Með úrskurði Landsréttar var staðfestur úrskurður héraðsdóms um að fella úr gildi fjárnámsgerðina frá maí 2023. Í úrskurði Landsréttar kom fram að leyfisbeiðandi væri bundinn við þau fyrirmæli reglna nr. 797/2016 um hvernig staðið skuli að ráðstöfun á greiðslum skatta og opinberra gjalda. Í 1. mgr. 2. gr. reglnanna segi berum orðum að þeim skuli alltaf ráðstafað „fyrst upp í elsta ár eða tímabil.“ Þá taldi Landsréttur að engin undanþága í 2. mgr. 2. gr. reglnanna ætti við í málinu og að líta yrði svo á að þær væru þar tæmandi taldar. Af því leiddi að leyfisbeiðanda hefði verið óheimilt að ráðstafa þeim fjármunum sem fengust með fjárnámi hjá eiginmanninum fyrrverandi fyrst til greiðslu á opinberum gjöldum hans fyrir árin 2013 til 2017. Landsréttur taldi að ef tekið hefði verið mið af þeim greiðslum sem borist hefðu frá honum hefði sá hluti af kröfu leyfisbeiðanda sem gagnaðili bæri sjálfskuldarábyrgð á verið greidd að fullu og ábyrgð hennar þar með fallin niður. Var því talið að slíkur vafi væri um réttmæti kröfu leyfisbeiðanda að ekki væri fært að láta standa á grundvelli hennar fjárnám sem gert hefði verið í eign gagnaðila án undangengins dóms eða sáttar.
5. Leyfisbeiðandi telur kæruefnið varða mikilvæga almannahagsmuni og hafa ríkt fordæmisgildi. Þannig sé mikilvægt með tilliti til hagsmuna ríkissjóðs og skuldara að skýrlega liggi fyrir hvaða reglur gildi um ráðstöfun peninga í kjölfar fullnustugerðar og að skorið verði úr um hvort 1. mgr. 2. gr. reglna nr. 797/2016 gildi um slíka ráðstöfun. Þá telur leyfisbeiðandi niðurstöðu Landsréttar bersýnilega ranga að efni til. Beiðni um fjárnám sé alltaf bundin við tilteknar kröfu og fullnustu hennar. Það sé grunnforsenda hvers fullnustumáls að tryggja greiðslu tiltekinna krafna. Þar að auki eigi ákvæði 1. mgr. 2. gr. reglna nr. 797/2016 ekki við þegar peningar hafi verið afhentir innheimtumanni ríkissjóðs við fullnustugerð.
6. Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi meðal annars um ráðstöfun greiðslna sem innheimtumaður ríkissjóðs innheimtir með fullnustugerð. Beiðni um kæruleyfi er því samþykkt.