Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-92
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Börn
- Barnavernd
- Vistun barns
- Forsjársvipting
- Miskabætur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 28. júní 2024 leita A, B, E og F leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 21. sama mánaðar í máli nr. 353/2022: D gegn A, B, E og F. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort gagnaðili hafi með ákvörðunum um tímabundna vistun barna utan heimilis, kröfu um forsjársviptingu og drætti á afhendingu barnanna til foreldra sinna eftir uppkvaðningu héraðsdóms gerst sekur um ólögmæta meingerð gegn leyfisbeiðendum og með því fellt á sig skyldu til greiðslu miskabóta.
4. Með héraðsdómi var gagnaðila gert að greiða leyfisbeiðendum hverju um sig 1.500.000 krónur í miskabætur. Landsréttur sýknaði gagnaðila af kröfum leyfisbeiðenda. Í dóminum kom fram að gagnaðili hefði ekki gerst sekur um ólögmæta meingerð gagnvart leyfisbeiðendum með því að telja hag barnanna best borgið með því að láta reyna á það fyrir dómi hvort uppfyllt væru skilyrði til forsjársviptingar á grundvelli barnaverndarlaga. Var talið að nægjanlega hefði verið gætt hagsmuna og réttinda leyfisbeiðenda sem forsjáraðila með því að þau voru sýknuð af kröfu um sviptingu forsjár eftir vandaða málsmeðferð fyrir héraðsdómi. Þá þóttu starfsmenn gagnaðila ekki hafa framið ólögmæta meingerð gagnvart leyfisbeiðendum þannig að stofnast hefði skylda til greiðslu miskabóta þótt börnin hefðu ekki verið afhent foreldrum sínum fyrr en að liðnum tíu dögum frá sýknudómi.
5. Leyfisbeiðendur byggja á því að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni aðila. Þau vísa til þess að með dómi sínum hafi Landsréttur, þrátt fyrir yfirlýsingu um að sýknudómurinn í forsjásviptingarmálinu sé bindandi, endurmetið niðurstöðuna með umfjöllun um hvort réttilega hafi verið staðið að því að setja fram kröfu um forsjársviptingu gagnvart leyfisbeiðendum. Þá byggja þau á því að sú forsenda í dómi Landsréttar hafi verið bersýnilega röng að skiljanlegar ástæður hafi verið fyrir því að gagnaðili afhendi börnin ekki fyrr en tíu dögum eftir að dómur var kveðinn upp í forsjársviptingarmálinu.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki talið að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.